Rofabarð með fjalldrapa á Hólasandi 1994
Rofabarð með fjalldrapa á Hólasandi 1994

Harður dómur um landnýtingu og ástand lands

Styrkjakerfið í íslenskum landbúnaði ýtir undir ofbeit og tilheyrandi gróður- og jarðvegseyðingu, að mati höfunda nýrrar skýrslu OECD um umhverfismál á Íslandi. Íslensk stjórnvöld eru gagnrýnd mjög fyrir lítið eftirlit og að rofskýrslunni svokölluðu frá 1997 skuli ekki hafa verið fylgt eftir.

Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur nú sent frá sér í þriðja sinn úttekt þar sem umhverfismál á Íslandi eru skoðuð ofan í kjölinn. Þessi skýrsla OECD var kynnt á Hotel Natura í Reykjavík 3. september. Þar er meðal annars fjallað um ástand gróðurs og jarðvegs á landinu og óhætt að segja að skýrsluhöfundar taki skýrt til orða. Hér sé landeyðing vandamál, meðal annars vegna ofbeitar, og styrkjakerfi landbúnaðarins ýti undir þetta. Í skýrslunni segir orðrétt á bls. 63:

Unlike many countries, Iceland does not seem to use many environmentally harmful subsidies, with two notable exceptions: tax exemptions on some energy products, and support to agriculture. The latter is well above the OECD average and entails a greater share of environmentally harmful incentives than in many other OECD countries. Measures that help maintain large numbers of grazing animals are of particular concern as they exacerbate soil erosion, which is a major problem in Iceland. Subsidies to sheep farmers are only in part conditional on meeting environmental performance standards.

Skýrsluhöfundar segja að á Íslandi beri styrkjakerfið almennt ekki með sér skaðleg áhrif á umhverfið ef undan séu skilin tvö dæmi. Styrkjakerfi landbúnaðarins er annað þeirra. Þessir styrkir séu talsvert hærri en að meðaltali er í löndum OECD og þeir hafi í för með sér meiri umhverfisáhrif en þekkist víða í öðrum OECD-löndum. Sérstaklega sé vert að hafa áhyggjur af styrkjum sem stuðli að því að viðhalda stórum stofnum beitardýra enda ýti beitin undir jarðvegseyðingu sem sé meiri háttar vandamál á Íslandi. Styrkir til sauðfjárræktar á Íslandi séu aðeins að hluta til bundnir skilyrðum um að umhverfislegum þáttum sé fullnægt.

Í skýrslunni er jafnframt talað um að ferðamannastraumur sé mjög vaxandi á Íslandi og sú þróun auki mjög álagið á viðkvæma náttúru landsins. Rætt er um ólíka hagsmuni við landnýtingu, til dæmis togstreitu sem geti orðið milli náttúrutengdrar ferðaþjónustu og nýtingar landsins til orkuframleiðslu. Náttúra landsins sé það sem þjóðin geti notað fyrst og fremst til að bæta efnahagsástandið. Þar eru nefndar orkuauðlindirnar en einnig möguleikar ferðaþjónustunnar. Íslendingum er talið til tekna að hér hafi verið mótuð skýr stefna um stjórn umhverfismála og sjálfbæra þróun, Íslendingar hafi sýnt frumkvæði og nýsköpun í þessum efnum með fiskveiðistjórnarkerfi sínu og nýtingu orkuauðlinda sinna, staðið sig vel í að draga úr vatns- og loftmengun og hvergi innan OECD sé hlutfall endurnýjanlegrar orku hærra en hér. Öðru máli gegni um nýtingu á gróðurlendi.

Íslensk stjórnvöld eru gagnrýnd harðlega í skýrslunni fyrir lélegt eftirlit. Ekkert hafi verið gert til að fylgja eftir rofskýrslunni frá 1997 (Jarðvegsrof á Íslandi) enda hafi skort á rannsóknir og vöktun á ástandi lands eftir að skýrslan kom út. Gagnrýnt er að hér skuli ekki hafa verið hannaðir mælikvarðar eða vísar fyrir hóflega beit annars vegar og ofbeit hins vegar, einnig að hér skuli enn viðgangast lausaganga búfjár og að gæðastýring í sauðfjárrækt skuli ekki vera nægilega öflug. Þar séu skilyrði ekki nægilega ströng og hvatningu vanti fyrir bændur að breyta um hátt. Orðrétt segir á bls. 80:

In 1997 the Soil Conservation Service and the Agricultural Research Institute published a national assessment of soil erosion in Iceland. According to the report, considerable or severe erosion affects about 40% of the country‘s area (Arnalds et al., 2001). However, this assessement has not been followed up, and monitoring data on land degradation and soil erosions are lacking.
Most rangelands are open to sheep grazing, and horse grazing is common in lowland areas. Current grazing practices, especially in the highlands, are hampering the natural regeneration of degraded ecosystems. The grazing period has been reduced over the past 50 years, from one year to about six months in the highlands. Most farmers continue to apply traditional rangeland management practices such as free-range grazing on common land.
A recent voluntary agreement between sheep farmers and the government ties a part of the agricultural production subsidies to quality mangaement requirements, including sustainable land use. However, the criteria are not stringent. Exemptions are granted if land improvement plans are made, although that land often remains unfit for grazing. The lack of monitoring and sustainability indicators weakens policy implementation and enforcement. In turn, this discourages farmers from changing land management practices.

Til að bregðast við skýrslu OECD vill Skógrækt ríkisins benda á leiðir sem beint liggur við að fara til að koma þessum málum í betra horf.

  • Að koma á vörsluskyldu búfjár í landinu og leggja af löngu úrelt beitarfyrirkomulag með lausagöngu sauðfjár.
  • Að fylgja eftir skýrslunni Jarðvegsrof á Íslandi frá 1997 með vöktun á ástandi lands með mælanlegum vísum eða mælikvörðum. Rétt eins og fylgst er stöðugt með veðurfari og um það safnað gögnum er nauðsynlegt að hafa á hverjum tíma tiltæk gögn um ástand gróðurþekjunnar, gróðurframvindu, gróðureyðingu og jarðvegsrof.
  • Að stórauka skógrækt á láglendisauðnum. Á þeim illa eða ógrónum láglendissvæðum sem nema 12% landsins búa mikil tækifæri til uppgræðslu með skógrækt. Í 6. grein landgræðslulaga frá 1965 segir: „Þar sem henta þykir, skal kosta kapps um að koma upp skógi og kjarri innan landgræðslugirðinga. Skógrækt ríkisins skal veita Landgræðslunni leiðbeiningar um þessa ræktun.“ Skógrækt er varanleg landgræðsluaðgerð. Henni fylgir beitarfriðun og hún gefur bændum tekjur sem geta vegið upp á móti minni tekjum þeirra af sauðfjárrækt.

Vert er að geta þess að rofskýrslan svonefnda, Jarðvegsrof á Íslandi, sem hér hefur verið minnst á hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1997. Skýrslan kom út á vegum Landgræðslu ríkisins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sem var og hét. Vísindamennirnir sem að henni unnu og hlutu verðlaunin voru þau Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Sigmar Metúsalemsson, Ásgeir Jónsson, Einar Grétarsson og Arnór Árnason. Báðum þeim skýrslum sem hér hefur verið fjallað um má hala niður af vefnum með eftirfarandi hlekkjum:

Tafla úr rofskýrslunni frá 1997 sem gefur skýra mynd af
jarðvegsástandi landsins þá. OECD átelur Íslendinga fyrir
að hafa ekki fylgt skýrslunni eftir með rannsóknum og vöktun.Myndir: Þröstur Eysteinsson
Texti: Pétur Halldórsson