Laugar í Reykjadal eru gott dæmi um það hvernig ræktaður skógur styður við annan landbúnað eða atvin…
Laugar í Reykjadal eru gott dæmi um það hvernig ræktaður skógur styður við annan landbúnað eða atvinnulíf, mannlíf og menningu. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Lands- og landshlutaáætlanir í skógrækt

Sveitarfélögin bera mikla ábyrgð og eru í lykilhlutverki hvað varðar að setja sér markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aukna bindingu kolefnis. Ein mikilvægasta leiðin til að binda kolefni er skógrækt.

Um þetta er fjallað í Hrein Hrefnu Jóhannesdóttur, skipulagsfulltrúa Skógræktarinnar, í nýjasta tölublaði Sveitarstjórnarmála. Greinin er á þessa leið:

Í nýlegum lögum um skóga og skógrækt nr. 33/2019 segir að eigi sjaldnar en á fimm ára fresti skuli gefa út landsáætlun í skógrækt, sem gildi til tíu ára í senn. Landsáætlunin skal kveða á um stefnu stjórnvalda þar sem fjallað er um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt. Í samræmi við ofangreind lög skipaði GuðmundurIngi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, verkefnisstjórn landsáætlunar í skógrækt í júní á sl. ári. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri er formaður verkefnastjórnarinnar. Einn fulltrúi er tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur.

Við gerð landsáætlunar í skógrækt skal horft til þess að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla og samþættingu við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga. Nánar tiltekið skal í áætluninni gerð grein fyrir:

 • forsendum fyrir vali á landi til skógræktar með tilliti til náttúruverndar, minjaverndar og landslags
 • vernd og endurheimt náttúruskóga
 • ræktun skóga til uppbyggingar skógarauðlindar og umfangi og horfum hvað varðar nýtingu
 • sjálfbærri nýtingu skóga
 • áhrifum skógræktar á atvinnuþróun og byggð
 • aðgengi fólks að skógum til útivistar
 • skógrækt í samhengi líffræðilegrar fjölbreytni
 • skógrækt í samhengi loftslagsbreytinga
 • öflun þekkingar á skógum og skógrækt og miðlun hennar
 • eftirliti með ástandi og nýtingu skóga
 • eldvörnum og öryggismálum

Tengsl við aðrar áætlanir

Skógræktin skal síðan í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög, skógarbændurog aðra hagsmunaaðila vinna landshlutaáætlanir, þar sem stefnansem fram kemur í landsáætluninni er útfærð nánar. Í landshlutaáætlunum skal tilgreina skóga og skógræktarsvæði, aðrar áherslur í skógrækt sem fram koma í skipulagsáætlunum og lagasetningu og hvernig samstarfi við sveitarfélög um skógrækt verði háttað.

Tengsl skógræktar við aðrar áætlanir og stefnur ríkis og sveitarfélaga eru margvísleg. Efst á baugi er áætlun íslenska ríkisins um kolefnishlutleysi árið 2040. Það er augljóst varðandi umhverfismálin að sveitarfélögin verða að setja sér skýr markmið um annars vegar   samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar aukna bindingu kolefnis. Kolefnisbinding í skógum er ein af mörgum aðgerðum til  að verjast loftslagsbreytingum og bæta ræktarlandið í leiðinni. Vannýtt tækifæri liggja í hvers kyns landbúnaði, hvort sem það er í   kvikfjárrækt, ræktun nytjaplantna, skógrækt eða öðrum búgreinum.

Mikilvægt er að ekki séu sett svo ströng skilyrði um skógrækt í  sveitarfélögum að þau fæli landeigendur frá því að nýta tækifærin sem í skógrækt felast. Skógrækt á landbúnaðarlandi er fullgild búgrein. Ákvörðun um skógrækt á tilteknu landi er ekki ákvörðun um aldur og ævi. Nytjaskógrækt getur hentað tímabundið á tilteknum  landskika en skóginum má breyta í akurlendi eða tún í framtíðinni. Til dæmis má rækta ösp í 25 ár, uppskera þá iðnvið og jafnvel  smíðavið en skipta að því búnu yfir í annars konar ræktun. Með réttum tækjum má fjarlægja rætur og eftir stendur frjósamur jarðvegur sem skógurinn hefur skapað.

Samráð vegna landsáætlunar og landshlutaáætlunar

Við mótun landsáætlunar og landshlutaáætlunar  verður haft beint samráð við alla hlutaðeigandi með sameiginlegum fundum og/eða skriflega. Búist er við því að drög að landsáætlun verði tilbúin og auglýst til umsagnar um mitt næsta sumar. Að öllu óbreyttu mun ráðherra samþykkja landsáætlun í skógrækt fyrir árslok 2020.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson