Hluti af nýju göngukorti úr nýjum bæklingi um Vaglaskóg. Um hönnun bæklingsins sá Þrúður Óskarsdótti…
Hluti af nýju göngukorti úr nýjum bæklingi um Vaglaskóg. Um hönnun bæklingsins sá Þrúður Óskarsdóttir, grafískur hönnuður hjá Forstofunni

Bæklingur Skógræktarinnar um Vaglaskóg hefur verið endurnýjaður með nýju og endurbættu gönguleiðakorti af skóginum. Fimm stikaðar gönguleiðir eru í skóginum og einnig liggur um hann endilangan reiðleið, um fjögurra kílómetra löng. Í bæklingnum nýja má meðal annars lesa um gömlu bogabrúna og plöntutegund sem hvergi vex annars staðar á landinu, engjakambjurt.

Aldrei hafa fleiri gist tjaldsvæðin í Vaglaskógi í júnímánuði en í ár. Myndin er tekin í Flatagerði, syðst í Vaglaskógi. Ljósmynd: Pétur HalldórssonVaglaskógur í Fnjóskadal er meðal fjölsóttustu skóga á Íslandi. Stærð skóglendisins er rétt um 4,5 ferkílómetrar. Árlega koma þúsundir
ferðamanna í skóginn, bæði til að njóta þar dvalar og útiveru, enda skógurinn tilvalinn til útivistar að sumri sem vetri. Í Vaglaskógi eru
merktar fjölbreyttar gönguleiðir, alls um 12,2 km að lengd. Í skóginum eru rekin tjaldsvæði og kjósa margir að eiga þar dvalarstað með tjöld sín og ferðavagna yfir sumarið. Metaðsókn var að tjaldsvæðunum í Vaglaskógi í júnímánuði síðastliðnum enda mánuðurinn með eindæmum sólríkur og Íslendingar á faraldsfæti eltu sólina í skóginn.

Margt er spennandi að sjá og skoða í Vaglaskógi. Þar er einn myndarlegasti birkiskógur landsins en einnig ræktaðir reitir með fjölda trjátegunda. Stutt er í skemmtilega fjallgöngu, trjásafnið er gaman að skoða og lífríki skógarins er afar fjölbreytt, auk trjánna eru það fuglarnir en líka sveppir, smádýr og svo auðvitað botngróðurinn. Sérstæðust er engjakambjurtin sem víða er að finna í breiðum, einkum í sunnanverðum skóginum. Þá tegund er hvergi annars staðar að finna villta á Íslandi.

Bæklingnum nýja má hlaða niður á síðu Vaglaskógar hér á skogur is og sömuleiðis verður hann fáanlegur á starfstöð Skógræktarinnar í Vaglaskógi og í sérstökum bæklingakössum sem er að finna við upplýsingaskilti í skóginum. Upplagt er að hlaða bæklingnum niður og hafa í snjalltækinu þegar farið er um skóginn. Einnig má hlaða niður göngukortinu eingöngu sem myndskrá.

Texti: Pétur Halldórsson