(Mynd: Ólafur Oddsson)
(Mynd: Ólafur Oddsson)
Eins og við sögðum frá hér á skogur.is kom ný stjórn Lesið í skóginn saman fyrir skömmu . Við það tækifæri lögðu Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri LÍS og Jón Hákon Bjarnason, skógræktarfræðingur og starfsmaður Menntasviðs Reykjavíkurborgar, fram tillögur að fyrirmynd við gerð nytjaáætlana fyrir grenndarskóga í Reykjavík.

Ólafur og Jón Hákon hafa undanfarið unnið að úttektum á grenndarskógum grunnskóla Reykjavíkurborgar.

„Við könnum almennt ástand grenndarskóganna,” segir Jón Hákon, „skoðum skipulag þeirra, hvað hefur verið gert og hvernig. Við skráum helstu háplöntur og trjátegundir,allan gróður, skoðum mælum vöxt trjáa og aldursgreinum þau. Þar að auki skoðum við aðgengi að skógunum, uppbyggingu á aðstöðu og verndun. Að öllum mælingum og undirbúningi loknum gerum við kort af grenndarskógunum til að skilgreina þá betur og sjá hvað má bæta, s.s. grisja, klippa, gróðursetja o.s.frv. Einnig gerum við tillögur um hvar staðsetja megi kennsku- og leiksvæði hvar megi t.d. vera með uppákomur.” Aðspurður um notkun grenndarskóga segir Jón Hákon: „Hjá flestum skólum er umgengni um grenndarskóga mjög góð og þeir almennt til fyrirmyndar. Með þessum skýrslum reynum við að stuðla að hæfilegu álagi á skógana og koma þannig í veg fyrir að þeir láti á sjá.”

Ólafur segir grenndarskógum hafa fjölgað mikið á undanförnum árum. „Hingað til hefur vantað leiðbeiningar um skipulag og uppsetningu grenndarskóga fyrir áhugasamt starfsfólk grunn- og leikskóla,” segir Ólafur. Fyrstu áætlunina lögðu þeir félagar fram um miðjan október og átti hún við grenndarskóg Ártúnsskóla. „Við Jón Hákon komum til með að fara í gegnum alla grenndarskógana í Reykjavík á þennan hátt og reiknum með að nytjaáætlanir fyrir skógana verði tilbúnar upp úr áramótum. Auk sérstakrar skýrslu fyrir hvern skóla verður sett saman ein heildarskýrsla þar sem finna má almennar leiðbeiningar og viðmið um vinnu og nýtingu grenndarskóga í skólastarfi, þar sem allar námsgreinar verða tengdar inn í útinámið og markmið í aðalnámskrá grunnskóla.” Lögð verður áhersla á virðingu gagnvart gróðri og skógarnytjarnar tengdar markmiðum um sjálfbærni í skólastarfi, sagði Ólafur að lokum.


Texti: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri
Mynd: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi