Trjáviður notaður með skapandi hætti

Falleg eða eftirtektarverð götugögn eða mannvirki gleðja augað og gera tilveruna fjölbreytilegri og skemmtilegri. Sjö strætóbiðskýli í bænum Krumbach í Austurríki eru sannarlega eftirtektarverð. Þetta er um 1.000 manna þorp sem ekki hefur látið mikið yfir sér en fengið nokkra athygli út á þessi nýstárlegu biðskýli.

Verkefnið, sem kallaðist BUS:STOP, tók eitt ár og þarna leiddu saman hesta sína arkiktektar og iðnaðarmenn úr heimahéraðinu og arkitektar sem komu að, meðal þeirra heimsfræg nöfn eins og Wang Shu, Sou Fujimoto og Smiljan Radic. Eitt íslenskt nafn er þarna líka, Dagur Eggertsson, sem býr og starfar í Ósló en er líka stundakennari við Listaháskóla Íslands. Dagur starfar með arkitektunum Sami Ritala og Vibeke Jenssen á stofu sem kallast Rintala Eggertsson.

Vefurinn ArchDaily, sem er fréttavefur um húsagerð og hönnun, segir frá verkefninu og ræðir við Dietmar Steiner, umsjónarmann þess. Steiner segir að þetta verkefni hafi tekist vel vegna þess að yfir 200 manns hafi lagt því lið með myndarlegum hætti. Þar á meðal voru arkitektarnir sem ekki fengu annað fyrir sinn snúð en ókeypis frí í litlu þorpi austast í Austurríki. Vissulega fengu þeir líka tækifæri til að taka þátt í óvenjulegu verkefni sem var alls ekki til þess eins að þjóna duttlungum, hönnunargleði eða hégómagirni. Verena Konrad, sem stýrir stofnuninni vai Voralberger Institut, sagði í spjalli við ArchDaily að verkefnið væri mikilvægt framlag í þeirri viðleitni að tvinna saman vel heppnuð þjónustumannvirki og almenningssamgöngur í þessu strjálbýla héraði.

Á efstu myndinni er biðskýlið sem Dagur Eggertsson tók þátt í að hanna. Skýlið sýnist vera klætt með viðarflögum sem auðvelt er að framleiða úr trjábolum, til dæmis af grisjunarviði úr íslenskum skógum. Þetta gæti verið spennandi klæðiningarefni fyrir íslenska húseigendur og húsbyggjendur. Neðsta skýlið er líka skemmtileg hugmynd. Það er frá hönnunarstofunni Ensamble Studio í Madríd á Spáni en gæti líka verið úr grófsöguðum borðum úr íslenskum skógi. Viður er líka notaður með skemmtilegum hætti í skýlinu í miðjunni sem er eftir Wang Shu. Skoða má öll skýlin á vefnum ArchDaily. Kannski verður þetta innblástur þeim sem hanna og skipuleggja mannabyggðir á Íslandi.

Myndirnar sem hér fylgja tók rússneski ljósmyndarinn Yuri Palmin ©