Eftir 20 ára kynbótastarf hefur Skógræktinni tekist að þróa nýjan kynblending af lerki sem vex að rúmmáli allt að tvöfalt hraðar en Rússalerki. Plantan gæti aukið möguleika á skógrækt á Suður- og Vesturlandi.

Fyrstu plönturnar tilbúnar

Þröstur Eysteinsson trjákynbótafræðingur hefur beðið lengi eftir þessu. Nýja hraðvaxna og harðgera lerkið er komið í dreifingu til skógarbænda. Fyrstu 20 þúsund plönturnar eru tilbúnar. „Ungplöntur, sem eru í gróðrarstöð Barra, eru fyrstu plönturnar sem vaxnar eru upp af fræi í fræframleiðslufasanum," segir Þröstur. 

Trjáyrkið kallast Hrymur eftir jötni í Völuspá en foreldrana fann Þröstur fyrir 20 árum á Atlavíkurstekk og víðar í Hallormsstaðaskógi. „Hér í þessum lerkiskógi sem er yfir höfuð ekkert voðalega fallegur er eitt einkar fallegt tré," segir hann. 

Hefur aukið frostþol

Foreldrarnir eru annarsvegar fjósamt Evrópulerki og hinsvegar Rússalerki sem vex spölkorn frá. Það er ættað úr hinum fræga Raivola reit þar sem Pétur mikli Rússlandskeisari ræktaði möstur í hersskip. Greinar voru teknar af lerkinu, græddar við rót og kynbættar til fræframleiðslu á Vöglum í Eyjafjarðarsveit. Árangurinn má sjá í 12 ára gömlum tilraunalundi á Höfða á Héraði. Nýi Hrymurinn er greinilega þéttari en Rússalerkið og hann er allt að 30 prósentum hávaxnari. Ekki spillir fyrir að hann hefur aukið frostþol á haustin og skemmist síður.

„Þannig að þetta er lerki sem menn geta notað á Suður- og Vesturlandi þar sem menn hafa í raun gefist upp á að nota lerki til þessa."Frétt: RÚV
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir