Nauðsynlegt tæki til áætlanagerðar í skógrækt

Ný og uppfærð útgáfa kortlagningarlykils fyrir grunngagnasöfnun við gerð ræktunaráætlana í skógrækt er komin út í Riti Mógilsár, tölublaði 33/2015. Lykillinn er tæki til að meta ástand og frjósemi lands og skipuleggja það til skógræktar.

Þegar skógrækt hófst fyrir alvöru á skóglausu landi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar varð mönnum fljótt ljós nauðsyn þess að horfa til ástands og frjósemi landsins sem til stóð að klæða skógi. Í byrjun árs 1987 var í fyrsta sinn birt í fjölriti sérstök lýsing á söfnun gagna vegna áætlanagerðar í skógrækt ásamt kynningu á hvernig unnið var úr gögnum fyrir tilraunajörðina Bakkakot í Skorradal sem kortlögð var á stækkaðri loftmynd sumarið 1986. Þetta var fyrsta ræktunaráætlunin sem unnin var eftir þessu kerfi.

Í þau 28 ár sem eru liðin síðan skipulögð áætlanagerð í skógrækt hófst hefur kortagerðarlykillinn sem kynntur var í áðurnefndu fjölriti verið notaður að mestu óbreyttur. Tækni við kortavinnsluna hefur hins vegar fleygt fram á þessum tíma með framförum í tölvutækni og til að mynda varð mikil breyting í kringum aldamótin þegar meðfærileg landfræðileg upplýsingakerfi (LUK) komu til sögunnar.

Á síðustu árum hefur verið unnið mikilvægt starf í því að samræma skráningu landfræðilegra upplýsinga á Íslandi undir heitinu Íslenskar fitjuskrár og tengist Íslenskum staðli (ÍST 120) um skráningu og flokkun landupplýsinga. Fyrir skógrækt hefur verið útbúinn sérstakur flokkur fitjuskráa. Björn Traustason, landfræðingur og sérfræðingur í LUK við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, útbjó í samráði við starfmenn Skógræktar ríkisins, Skógræktarfélags Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landgræðslu ríkisins, landshlutaverkefna í skógrækt og Hekluskóga fitjuskrá fyrir fitjuflokkinn 510 Skógrækt. Náttúrufræðistofnun Íslands útbjó á sama hátt fitjuskrár fyrir flokka 501 Strjálgróið land og 502 Gróið land. Í þeim eru skilgreindar sem fitjueigindir nokkrar af þeim breytum sem eru í kortlagningarlyklinum.

Þeir skógfræðingar sem notað hafa lykilinn og gert ræktunaráætlanir hafa öðlast reynslu á notkun hans og séð hvaða breytur lýsa best aðstæðum til trjávaxtar og þrifa mismunandi trjátegunda. Þó verður að hafa í huga að trjátegunda- og aðferðaval getur verið æði misjafnt, bæði milli og innan landshluta, og er undir stöðugri endurskoðun eftir því sem þekking og reynsla eykst, veðurfar breytist og ný og betri afbrigði trjátegunda eru tekin í notkun. Upphaflegri hugmyndafræði grunnkortlagningarinnar er enn fylgt, að lýsa á sem hlutlausastan hátt landgæðum þannig að á hverjum tíma sé hægt að nýta þær til að gera áætlanir um nýræktun eða áframhaldandi ræktun skóga á viðkomandi svæði óháð stefnubreytingum í vali á ræktunaraðferðum og trjátegundum.

Markmið grunnkortlagningar er að safna landfræðilegum upplýsingum um svæði sem tekin eru til skógræktar. Þessi gögn eru síðan notuð við gerð ræktunaráætlana. Gögnin eða upplýsingarnar svara því ekki hvernig og hvað beri að gera heldur eru þær fremur staðhátta- eða ástandslýsingar, nægilega margþættar og lýsandi til að út frá þeim sé hægt að gera sér hugmyndir um hvaða aðgerðir eða framkvæmdir henta best hverju sinni. Markmiðið er að safna upplýsingum, sem varpað geta sem bestu ljósi á, í hvaða framkvæmdir skuli ráðist í hverjum reit. Gagnasöfnuninni er lýst í inngangi lykilsins og farið yfir markmið hennar og tilgang. Í samantekt fremst í lyklinum er listi yfir algengustu gildi þeirra breytna sem notaðar eru við kortlagningu á skóglausu landi. Listinn er líka birtur á ensku með stuttum skýringartexta. Kortlagningarlykillinn hefur að geyma lýsingu á því hvernig meta skuli mismunandi gróðurhverfi, halla lands og jarðvegsdýpt, hallaátt, grýtni (grjót á yfirborði) og undirlag jarðvegs. Einnig eru skilgreindar og lýst viðbótabreytum vegna trjágróðurs sem kann að vera fyrir á viðkomandi svæði.

Kortlagningarlyklinum má hlaða niður hér.

Texti: Pétur Halldórsson