Sýningargestir á Elmia Wood 2022 fylgjast með kynningu á nettri útkeyrsluvél. Skjámynd úr myndbandi …
Sýningargestir á Elmia Wood 2022 fylgjast með kynningu á nettri útkeyrsluvél. Skjámynd úr myndbandi Kviklands

Elmia Wood skógtæknisýningin í Svíþjóð sem haldin er fjórða hvert ár er líklega stærsta sýning sinnar tegundar í heiminum. Í nýju myndbandi frá Kviklandi eru nokkrir áhugverðir sýnendur heimsóttir til að kynnast starfsemi þeirra og ýmsum nýjungum sem þar var teflt fram.

Sýningin fór fram 2.-4. júní í sumar og fór hópur Íslendinga utan til að kynnast því sem þar var í boði. Þegar gengið var um sýningarsvæðið var af mörgu að taka og vandi að velja hvað fjalla skyldi um frekar en annað. Hlynur Gauti Sigurðsson, kvikmyndatökumaður hjá Kviklandi og starfsmaður Bændasamtakanna, tók þann kaleik að velja úr. Í myndbandinu má segja að valið sé að nokkru handahófskennt en samt sem áður var markmiðið velja áhugavert efni sem nýst gæti skógargeiranum á Íslandi sem best, svo sem plönturækt, grisjun, viðarvinnsla og skógarumhirða.

Í myndbandinu segir fulltrúi Fin Forelia, eins stærsta skógarplöntuframleiðanda á Norðurlöndunum, frá starfseminni. Fyrirtækið rekur fjórar trjáplöntustöðvar dreifðar um Finnland sem framleiða fyrst og fremst fyrir finnskan markað en líka mikið fyrir Svíþjóð og fleiri lönd. Við kynnumst útdráttarspilum frá bandaríska fyrirtækinu Portable Winch, sjáum smávaxna en öfluga skógarhöggsvél frá Malwa í Svíþjóð og áhugaverða stubbatætara frá eistneska fyrirtækinu Dipperfox. Fjallað er um öflugar rafknúnar keðjusagir frá Cramer sem hannaðar eru og smíðaðar að öllu leyti í Svíþjóð. Fulltrúi framleiðandans heldur því fram í myndbandinu að þetta séu fyrstu rafknúnu sagirnar sem geti keppt við hefðbundnar bensínsagir í krefjandi skógarvinnu. Þá sjáum við trjáklifrara eða arborista í bás sænska fyrirtækisins Husqvarna sem nota rafknúnar sagir við vinnu sína, lítum á sænskar Logosol-flettisagir og fræðumst um kyndistöðvar frá sænska fyrirtækinu Biovärme. Loks er hugað að nútímatækni í landupplýsingum og kortagerð hjá pcSkog og drónatækni hjá Arboair sem sömuleiðis er hvort tveggja sænskt fyrirtæki.

Svo margt var til sýnis á Elmia Wood að erfitt er að gera því skil svo öllum verði til hæfis. Því er óhætt að mæla með því við allt áhugafólk og atvinnufólk í skógrækt að sækja þessa sýningu, sem haldin verður næst árið 2026. Þar er vettvangur til að kynnast ýmsum nýjungum, fræðast, mynda tengsl og fá nýjar hugmyndir.

Myndbandið er á ensku og sænsku en með íslenskum texta.

Texti: Pétur Halldórsson