Skíðagöngubraut herfuð í Haukadalsskógi nú í nóvember. Milt haust hefur hentað vel til vinnu í skógu…
Skíðagöngubraut herfuð í Haukadalsskógi nú í nóvember. Milt haust hefur hentað vel til vinnu í skógum landsins en skíðagöngufólk er örugglega farið að bíða eftir snjónum. Ljósmynd: Ægir Freyr Hallgrímsson

Aðstaða til skíðagöngu í Haukadalsskógi hefur verið bætt með nýjum leiðum og endurbótum á þeim sem fyrir voru. Leiðirnar eru hugsaðar sem göngu- og hlaupaleiðir þegar ekki er snjór. Sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu taka þátt í skipulagningu leiða og kynningu og er það liður í átaki um heilsueflandi samfélag.

Kort sem sýnir skíðagönguleiðir í Haukadalsskógi með nýjustu viðbótunumUndanfarna daga hefur Ægir Freyr Hallgrímsson, starfsmaður skógarvarðarins á Suðurlandi, unnið að því að herfa nýjar skíðabrautir í Haukadalsskógi. Jafnframt hefur verið unnið að því að laga skógarstíga sem voru fyrir, saga frá þeim og slétta, svo að leiðirnar henti betur til skíðagönguiðkunar en þær eru auðvitað líka hugsaðar sem hlaupa- og gönguleiðir þegar ekki er snjór.

Að sögn Trausta Jóhannssonar, skógarvarðar á Suðurlandi, liggur nú ný leið um skjólbeltin sunnan við Hákonarlund. Það er rúmlega 500 metra langur hringur á flötu svæði og hentar því mjög vel fyrir byrjendur í skíðagöngu. Einnig hafa verið útbúnar nokkrar tengingar til að búa til hringleiðir svo að fólk geti komið til baka á upphafspunkt án þess að snúa við á sama sporinu.

Heildarlengd þeirra stíga sem nú hafa verið lagðir eða endurbættir er um þrír kílómetrar en áfram verður unnið að því að bæta aðgengi og opna fleiri leiðir, segir Trausti. Stærri hringurinn sem sjá má á meðfylgjandi korti er meira krefjandi en sá stutti, því þar þarf að fara upp og niður smávægilegan halla en Trausti segir að báðar þessar leiðir ættu samt sem áður að vera færar flestum með lágmarkskunnáttu í skíðagönguíþróttinni.

Sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu eru með í átaki Landlæknisembættisins um heilsueflandi samfélag og hafa tekið þátt í að skipuleggja leiðirnar og auglýsa svæðið. Þar er í forystu Gunnar Gunnarsson, íþrótta- og heilsufræðingur. Þá hefur Hótel Geysir stutt þetta verkefni með því að leggja til vélsleða til að troða skíðagöngusporin í skóginum en Gunnar útbjó spora og þjappara aftan í hann fyrir sjálft skíðasporið. Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum styrkti uppbyggingu leiðanna og viðhald gönguleiða í Haukadalsskógi í sumar.

Brautirnar byrja við bílastæðið við Hákonarlund en þar einnig hægt að nýta sér snyrtingar allt árið um kring. Allt er því til reiðu nema snjórinn því enn er snjólaust í Haukadalsskógi eins og annars staðar á landinu. Veturinn er þó bara rétt að byrja og verður spennandi að sjá hvernig skíðagöngufólk tekur bættri aðstöðu í þessum fallega þjóðskógi. 

Texti: Pétur Halldórsson