Kristján Jónsson skógræktarráðgjafi lítur upp frá kennslustörfunum á námskeiðinu fyrir nýja skógarbæ…
Kristján Jónsson skógræktarráðgjafi lítur upp frá kennslustörfunum á námskeiðinu fyrir nýja skógarbændur. Neðst til vinstri sést í bæklinginn sem nýir skógarbændur fá til að átta sig á aðalatriðunum. Ljósmynd: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Um þessar mundir eru haldin grunnnámskeið fyrir nýjar þátttakendur í skógrækt á lögbýlum. Í dag og á morgun fer til dæmis fram námskeið fyrir nýja skógarbændur á Vesturlandi og Vestfjörðum. Hátt í 100 manns taka þátt í þessum námskeiðum þetta árið. Námskeiðin fara nú fram í fjarfundakerfi.

Námskeiðin eru að þessu sinni haldin í fjarfundakerfi. Fyrir helgina fór fram námskeið fyrir nýja skógarbændur á Austurlandi og síðar í þessari viku verður námskeið á Norðurlandi. Fyrir nýja sunnlenska skógarbændur verður svo haldið námskeið í byrjun maí.

Algengt er að fleiri en einn sæki þessi námskeið frá hverju lögbýli. Á námskeiðinu fyrir Vesturland og Vestfirði sem nú stendur yfir sitja um 40 manns. Grunnfræðsla er nauðsynleg öllum sem hefja skógrækt með samningi við Skógræktina. Venjan hefur verið að kalla fólk saman á þessi námskeið á tilteknum stað en vegna veirufaraldursins er það að sjálfsögðu ekki hægt núna. Svo er bara spurningin hvort þetta fyrirkomulag verður til frambúðar eða hvort horfið verði til hins fyrra þegar faraldrinum lýkur. Hvort tveggja hefur sína kosti en fjarfundafyrirkomulagið hefur þann ótvíræða kost að því fylgja engin ferðalög og því ættu fleiri að geta sótt námskeiðin en ella.

Meðfylgjandi mynd tók Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu Skógræktarinnar, í morgun þar sem Kristján Jónsson skógræktarráðgjafi leiðbeindi væntanlegum skógarbændum á Vestfjörðum og Vesturlandi frá skrifborði sínu í starfstöð Skógræktarinnar á Ísafirði.

Texti: Pétur Halldórsson