Allir velkomnir að skoða í dag og enginn aðgangseyrir tekinn

Fundist hafa nýir virkir hverir í Haukadalsskógi ekki langt frá Haukadalskirkju inni í gömlum skógarreit. Tóku starfsmenn eftir mikilli gufu sem steig upp úr skógarrjóðri og könnuðu málið. Þetta er gamalt hverasvæði sem hefur líklega virkjast á ný í kjölfar jarðskjálftahrinu sem varð norðan við Geysi fyrir nokkrum vikum. Einn af hverunum sem mynduðust hefur rutt upp úr sér eðju og drullu og spýr nú sjóðheitu vatni.

Eftir að spurðist út um hverasvæðið hefur fjöldi ferðamanna heimsótt svæðið til að skoða þetta náttúruundur. Ekki er rukkað inn í skóginn og allir velkomnir á svæðið. Gestir eru þó beðnir um að ganga vel um náttúruna og gæta sín á heitri drullu í skógarbotninum. Meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð.

Að afloknum degi er rétt að taka fram að í dag er 1. apríl og þá er leyfilegt að láta fólk hlaupa hingað og þangað.