Fimmtudaginn 14. október kom saman ný stjórn verkefnisins Lesið í skóginn. Við það tækifæri lögðu Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri og fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins, og Jón Hákon Bjarnason, skógræktarfræðingur, fram tillögur að fyrirmynd við gerð nytjaáætlana fyrir grenndarskóga í Reykjavík. Rædd var fyrirhuguð könnun meðal samstarfsskóla Lesið í skóginn í Reykjavík sem m.a. er ætlað að gefa upplýsingar um hvernig einstakir skólar nýta grenndarskóga sína í skólastarfi, hverja helstu hindranir í notkun þeirra séu og hvernig megi nýta þá betur.

Á myndinni eru (f.v.) Brynjar Ólafsson, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands; Rannveig Andrésdóttir, skólastjóri Ártúnsskóla; Björn Júlíusson, Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar; Þórólfur Jónsson, Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar; Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri og fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins; Þorbjörg Sandholt, Langholtsskóla og Guðrún Edda Bentsdóttir, Menntasviði Reykjavíkurborgar.