Í dag verður ný skógarhöggsvél prófuð í fyrsta sinn hér á landi í Haukadal. Vélin var keypt notuð frá finnsku skógarþjónustunni í Joensuu í Finnlandi og kostaði 7,5 milljónir. Vélin er talin geta sinnt miklum hluta þeirra grisunarverkefna sem Skógrækt ríkisins hefur á verkefnaskrá sinni. ,,Þetta er alger bylting", segir Hreinn Óskarsson skógarvörður. ,,og mun gera Skógræktinni á Suðurlandi kleyft að sinna nauðsynlegri grisjun á flestum skógarsvæðum, nema þó albröttustu hlíðum. Nú þegar liggur fyrir grisjun á tugum hektara af 30-50 ára gömlum greniskógi sem er forsenda þess að skógarnir geti vaxið eðlilega á næstu árum." Talið er að vélin geti grisjað um hálfan hektara af skógi á sólarhring og mun hún verða send í verkefni á Vesturlandi þegar vinnu hennar er lokið á Suðurlandi. Fyrsta verkefni vélarinnar er grisjun á skógi í skóglendinu austan Haukadalskirkju.