Tækin nýju tekin til kostanna í skóginum í Heiðmörk. Ljósmynd: Sævar Hreiðarsson
Tækin nýju tekin til kostanna í skóginum í Heiðmörk. Ljósmynd: Sævar Hreiðarsson

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur tekið í notkun nýja sérhæfða dráttarvél fyrir vinnu í skógi og útkeyrsluvagn með krana til sömu nota.

Sérhæfðar dráttarvélar til vinnu í skógi eru áhugaverður kostur fyrir marga skógareigendur því þær þykja hafa mun fjölbreyttari notkunarmöguleika en þær vélar sem eingöngu eru ætlaðar til skógarhöggs eða útkeyrslu timburs úr skógi. Finnar eru framarlega við þróun og framleiðslu slíkra véla. Dráttarvélar af þessum toga má nýta til hefðbundinna verka í búskap auk þess sem þær nýtast við skógarvinnuna. Þær ættu því að koma að góðum notum í ungu skógarlandi eins og Íslandi.

Dráttarvélin er af tegundinni Valtra A 114 en vagninn Kesla 92, hvort tveggja framleitt í Finnlandi. Ljósmynd: Hlynur Gauti SigurðssonDráttarvélin sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur eignast er af tegundinni Valtra A 114 og er með 110 hestafla 4 strokka dísilmótor. Á honum er með SCR-mengunarvarnabúnaður. Gírkassi er mekanískur 12+12 í 2 drifum fyrir allt að 40km hraða. Vökvavendigír er við stýri og loftsæti með 180° færslu. Vélin er með 98 lítra vökvadælu, ámoksturstækjum og gripkló fyrir trjáboli.

Skógarvagninn sem félagið hefur einnig eignast er af gerðinni Kesla 92 og hefur 9 tonna burðargetu. Á honum eru vökvabremsur, vökvastýring á beisli, grind er framan við farm, 4 raðir af stoðum og hjólbarðar eru af stærðinni 400/65×15,5. Þá fylgir kassi með þeim verkfærum sem þarf til að sýsla með sögina.

Kraninn er frá Kesla af gerðinni 203 T. Hann nær 6,7m og á honum er greip með „rotator“ og mekanískri stýringu. Fjarstýrt 1.400 kg spil og öflugt tvist-vinnuljós er á honum einnig.

Öll tækin eru framleidd í Finnlandi og voru flutt inn af Jötni vélum.

Texti: Pétur Halldórsson