"Eyðing skóga gæti orðið minni í framtíðinni en menn hafa talið, ef marka má rannsóknir á því þar sem nýrri tækni er beitt. Alþjóðlegt lið vísindamanna segja rannsókn sína benda til þess að ákveðinn umsnúningur geti orðið á eyðingu skóglendis jarðar á næstu árum og hún jafnvel stöðvast. Í rannsókninni var mælt magn timburs, heildarmassi þess og kolefnisbinding trjáa í stað þess að mæla aðeins flatarmál skóglendis.

,,Við sjáum möguleika á því að eyðingu skóga muni ljúka; við ætlum ekki að spá því en teljum það mögulegt," segir Pekka Kauppi, einn rannsakenda. Kauppi er prófessor við háskólann í Helsinki. Hann segir tölfræðilegar upplýsingar af þessari rannsókn sýna þetta vandamál, þ.e. eyðingu skóga, með nákvæmari hætti en fyrri rannsóknir.

Með hinni nýju aðferð kom í ljós að skóglendi hefur aukist undanfarin 15 ár í 22 af 50 þeim löndum heims þar sem skóglendi er mest. Í um helmingi þeirra landa hafði kolefnisbinding aukist og heildarmassi trjánna. Eyðing skóga heldur þó áfram í Brasilíu og Indónesíu.

Skóglendi er um 30% alls landssvæðis jarðar, en um 13 milljónir hektara eyðast á ári hverju. BBC nefnir að á Íslandi sé að finna þrjár upprunalegar trjátegundir en í Brasilíu 7.780. BBC segir frá þessu."

Heimild: http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1234860