Grænni skógar I er yfirskrift á öflugu skógræktarnámi, ætlað öllum fróðleiksfúsum skógræktendum á Norðurlandi sem vilja ná hámarksárangri í skógrækt. Námið samanstendur af 17 námskeiðum og þar af eru 14 skyldunámskeið. Fyrstu námskeiðin verða kennd á haustönn 2007 og þau síðustu vorið 2010. Hvert námskeið stendur í tvo daga og þá yfirleitt frá kl.16:00 til 19:00 á föstudegi og frá kl.9:00 til 16:00 á laugardegi. Reynt verður að koma við verklegri kennslu og vettvangsferðum eins og við á hverju sinni.

Skráningarfrestur er til 10. september á skrifsstofu Norðurlandsskóga í síma 462 5640


Landbúnaðarháskóli Íslands sér um skipulag námsins í samstarfi við Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Norðurlandsskóga og Félag skógarbænda á Norðurlandi. Hámarksfjöldi þátttakenda í námskeiðaröðina er 30. Þeir sem ljúka 80% af skyldunámskeiðunum 14 fá námið metið til eininga á framhaldsskólastigi.

Síðast var sett af stað námskeiðaröð Grænni skóga I á Norðurlandi árið 2002, um 20 manns útskrifuðust úr þeirri námskeiðaröð árið 2005.

Í dag hafa 100 manns útskrifast af námskeiðaröðum Grænni skóga víðsvegar um landið.
 
Nánari upplýsingar um námskeiðaröð Grænni skóga I á Norðurlandi 2007 – 2010 er að finna á heimasíðu Norðurlandsskóga  www.nls.is