Plöntur sem geymdar hafa verið vetrarlangt í frysti. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Plöntur sem geymdar hafa verið vetrarlangt í frysti. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Í nýju tölublaði af Riti Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, fjallar Rakel Jónsdóttir sérfræðingur um svokallaða jónalekaaðferð sem notuð er til að meta frostþol skógarplantna og nýtist meðal annars vel til að meta hvort plöntur hafa öðlast nægilegt frostþol til að þola vetrargeymslu í frysti.

Forsíða 46. tölublaðs Rits MógilsárTitill greinar Rakelar er Frostþol skógarplantna og frostþolsmælingar – verklýsing á jónalekaaðferðinni. Í inngangi segir að yfirvetrun skógarplantna á frystigeymslum sé al­geng á norðurhveli jarðar en þess má geta að nú er útlit fyrir að notkun á þessari geymsluaðferð muni aukast að mun hérlendis næstu árin. Aðferðin verndar gæði skógarplantna fyrir skaðlegum breyt­ingum í veðurfari yfir vetrartímann. Ef plönt­um er hins vegar pakkað inn á frysta án þess að hafa nægjanlegt frostþol, hafa þær lítið geymsluþol til þess að lifa af geymsluna. Fundist hefur sterkt samband á milli þess frostþols sem plöntur ná á haustin og lifunar og rótarvaxtar eftir geymslutímann.

Árangur í skógrækt byggist m.a. á gæðum skógarplantnanna sem eru gróðursettar. Heilbrigðar, þróttmiklar plöntur eru lík­legri til að komast á legg en þær sem laskaðar eru. Því er nauð­synlegt að framleiðendur hafi aðgengi að áreiðanlegri aðferð til þess að meta frostþolið áður en til pökkunar inn á frysta kemur. Jónalekaaðferðin (SEL; Shoot Electrolyte Leakage), sem lýst er í þessu nýútkomna tölublaði Rits Mógilsár, hefur verið notuð til að meta frostþol skógar­plantna í framleiðslu í Skandinavíu um áratuga­skeið og á Íslandi síðan 2004. Aðferðin er byggð á rann­sóknum á rauðgreni og skógarfuru en hefur verið heimfærð yfir á aðrar tegundir.

Rann­sókn­ir hafa leitt í ljós að ræktunarferlar innan gróðrar­stöðva hafa úrslitaáhrif á það hvort skógar­plöntur ná góðu frostþoli á haustin. Þar spilar inn í sáningar­tími, myrkvun, uppruni fræsins og kæling að hausti til svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöður ís­lenskra jóna­lekamælinga eru dregnar saman í grein­inni og fjallað um hvaða lærdóm megi draga af þeim.

Frétt: Pétur Halldórsson