Myndin afhent á Mógilsá. Frá vinstri: Garðar Valur Jónsson, , Arnór Snorrason, Edda Sigurdís Oddsdót…
Myndin afhent á Mógilsá. Frá vinstri: Garðar Valur Jónsson, , Arnór Snorrason, Edda Sigurdís Oddsdóttir, Cecilie Landsverk og Silje Beite Løken

Fimmtíu ár á þessu ári frá því að rannsóknastöðin var reist fyrir þjóðargjöf Norðmanna

Fulltrúar norska sendiráðsins komu í óformlega heimsókn á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá föstudaginn 13. janúar. Tilefni heimsóknarinnar var að afhenda nýja mynd af Haraldi V Noregs­konungi. Það var einmitt Haraldur V sem vígði Rannsóknastöðina 15.ágúst 1967 en þá var hann enn krónprins Noregs.

Stöðin á Mógilsá var reist fyrir þjóðargjöf Norðmanna sem faðir Haralds, Ólafur V. Noregskonungur, færði Íslendingum 1961. Myndin nýja kemur í stað eldri myndar af konunginum sem farin var að láta á sjá. Sendiherrann, Cecilie Landsverk, og starfs­fólk hennar þáði kaffi og áttu þau líka gott spjall við forstöðumann og aðstoðar­forstöðumann Mógilsár, Eddu Sigurdísi Oddsdóttur og Arnór Snorrason. Rann­sóknastöð skógræktar á Mógilsá verður 50 ára á þessu ári og sýndu gestirnir mikinn áhuga á því að taka með einhverjum hætti þátt í að fagna þeim tímamótum.

Í Alþýðublaðinu 21. febrúar 1967 er fjallað um starfsemi Skógræktarinnar og meðal annars rannsóknastöðina nýju sem þá var í smíðum. Fram kemur að framkvæmdirnar hafi kostað fimm milljónir króna. Stöðinni sé ætlað:

... að vera miðstöð fyrir tilraunir, sem gerðar eru víðs vegar um landið, en þær eru þegar komnar nokkuð á stað. Skógræktinni barst mikið af rannsóknartækjum að gjöf frá Þýzkalandi. Einnig gáfu Norðmenn 1 mill kr. Á Mógilsá eru nú tveir fastráðnir starfsmenn.

Í Morgunblaðinu 16. ágúst 1967  er síðan fjallað um vígslu stöðvarinnar undir fyrirsögninni „Óska Íslandi til hamingju með skógræktina og hina nýju skógræktarstöð“. Sagt er frá því að Haraldur ríkisarfi Norðmanna hafi daginn áður vígt til afnota „Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins sem reist hefur verið að Mógilsá á Kjalarnesi fyrir þjóðargjöf Norð­manna til Íslendinga, er Ólafur V Noregskonungur afhenti Íslendingum, er hann heimsótti Ísland árið 1961.“

Þjóðargjöf Norðmanna sem konungur afhenti 1961 var ætlað að verja til eflingar skógrækt á Íslandi og til eflingar menningartengsla milli Íslands og Noregs. Sérstök stjórnarnefnd var skipuð til að ákveða hvernig fénu skyldi varið og sat Hákon Bjarnason skógræktarstjóri í nefndinni ásamt Myklebost, sendiherra Norðmanna á Íslandi, og Hákoni Guðmundssyni yfirborgardómara. Ákveðið var að verja fjórum fimmtu hlutum gjafarinnar til að reisa tilraunastöð fyrir skógrækt.

Afmæli Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá verður fagnað með tvennum hætti á árinu, fyrst með því að stöðin sér á þessu ári um árlega Fagráðstefnu skógræktar. Ráðstefnan verður haldin í Hörpu í Reykjavík 23.-24. mars. Í ágústmánuði er sjálft vígsluafmælið og er undirbúningur þess hafinn.

Á meðfylgjandi mynd eru Garðar Valur Jónsson starfsmaður norska sendiráðsins, Arnór Snorrason, sérfræðingur á Mógilsá, Edda Sigurdís Oddsdóttir, forstöðumaður á Mógilsá, Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs, og Silje Beite Løken, menningarfulltrúi sendiráðsins.

Hér má lesa frekar um skógrækt á Íslandi 1967 og upphaf Mógilsárstöðvarinnar í blaðagreinum.

Texti: Pétur Halldórsson