Umsóknarfrestur til 28. maí

Norræna skógrannsóknarstofnunin SNS og svæðisskrifstofa evrópsku skógarstofnunarinnar í Norður-Evrópu, EFINORD, hafa auglýst til umsóknar styrki til norrænna skógrannsóknanetverka fyrir árið 2015. Þau sem hafa áhuga á norrænu samstarfi á einhverju áhugasviði sínu í skógrannsóknum geta hér sótt um fjármagn til að halda fund eða ráðstefnu á viðkomandi sviði með starfssystkinum víðs vegar af Norðurlöndunum.

Sérfræðingar Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá eru boðnir og búnir að aðstoða þau sem áhuga hafa á að sækja um. Gott er líka fyrir starfsfólk á Mógilsá að fá að fylgjast með þeim umsóknum sem eru í farvatninu svo auðveldara sé að samhæfa rannsóknarstarf og leiða saman fólk sem vinnur að skyldum verkefnum. 

Norræna skógrannsóknarstofnunin Samnordisk Skovforskning, skammstafað SNS, er samstarfsvettvangur á vegum norrænu ráðherranefndarinnar, fjármagnaður með fé frá norrænu ríkjunum. Megintilgangur hennar er að stuðla að rannsóknum á ýmsum sviðum sem snerta sjálfbæra skógrækt og skógarnytjar en líka að vera norrænu ráðherranefndinni til ráðgjafar um skóga og skógrannsóknir. Með framsýnu rannsóknarsamstarfi og með því að miðla þekkingu vill SNS leggja sitt af mörkum til ábyrgrar efnahagslegrar og umhverfislegrar umsýslu og nýtingar skóga og skógarauðlinda á Norðurlöndunum. Ábyrgðarsvið SNS nær til skógræktar, skóga og kjarrlendis, nýtingar á viði og öðrum skógarafurðum en jafnframt til annarra gilda og verðmæta sem felast í skógum þótt þau séu ekki efnahagsleg.

Evrópska skógarstofnunin European Forest Institute, skammstafað EFI, er umfangsmikill vettvangur samstarfs Evrópuríkja í skógrannsóknum. Alls hafa 25 Evrópuríki fullgilt sáttmála stofnunarinnar og nú taka 130 stofnanir og samtök þátt í starfi hennar. EFI er líka viðurkennd sem óháður álitsgjafi um skógarmál og þangað er leitað eftir öruggum upplýsingum sem meðal annars nýtast stjórnsýslunni. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Joensuu í Austur-Finnlandi en að auki eru fimm svæðisskrifstofur og skrifstofa  í Barcelona sem þjónar stjórnsýslunni. Norðurskrifstofa stofnunarinnar kallast EFINORD og er frá og með janúar á þessu ári starfrækt hjá skógfræðideild sænska landbúnaðarháskólans, Sveriges Lantbruksuniversitet (SLU) Megintilgangur EFINORD er að efla samskipti og samstarf rannsóknarstofnana  og -hópa. EFINORD á að vera regnhlíf yfir samstarfsnetum á sviði skógvísinda og ýta undir verkefni á þeim sviðum sem snerta skógarmálefni á Norðurlöndunum. Tvö viðfangsefni eru efst á baugi um þessar mundir, annars vegar framleiðsla lífmassa og hins vegar öflug nýtingarstjórnun skóga og vistkerfisstjórnun.

Löng hefð er fyrir norrænu samstarfi en hjá EFINORD segja menn nauðsynlegt að gera samstarfið enn virkara og efna til frjósamari samstarfsverkefna. Nú eru tækifæri fyrir íslenskt skógvísindafólk að taka þátt í þeirri eflingu.

Reglur um umsóknir má finna hér. Umsóknarfrestur er til miðnættis 28. maí 2014.

Umsóknareyðublað er hér