SNS auglýsir eftir umsóknum um námsstyrki til að efla samskipti og þekkingarmiðlun milli fólks á Norðurlöndum sem starfar eða stundar nám á sviði skógvísinda. Umsóknarfrestur rennur út 15. febrúar.

Stundar þú nám eða vinnur í skógerfðavísindum? Langar þig að heimsækja annað fólk sem starfar á sama sviði til að skiptast á þekkingu og reynslu? Ertu með hugmynd að ráðstefnu eða vantar þig fjármagn til að geta tekið þátt í vinnusmiðju?

Aukin samskipti og samvinna fólks á Norðurlöndunum um þekkingarmiðlun og tengslanet gagnast öllum. Þess vegna hefur SNS, Norrænar skógrannsóknir, tekið höndum saman með NordGen Forest og býður námsstyrki til að auðvelda norrænt samstarf.

Missið ekki af því tækifæri sem felst í þessum námsstyrkjum. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar 2020. Sækið um hér.

Æskilegt er að þau verkefni sem sótt er um styrk fyrir styðji við sameiginlega norræna hagsmuni með því að styðja við menntun, endurmenntun og þekkingarmiðlun til fólks sem starfa eða stunda nám á Norðurlöndunum á sviði fræræktar trjáplantna, skógarplöntuframleiðslu, endurræktunar skóga eða kynbóta skógarplantna. Við mat á umsóknum er jafnframt tekið tillit til kynjajafnvægis. Hámarksstyrkur til hvers umsækjanda getur verið 20.000 norskar krónur, sem nemur um 275.000 íslenskum krónum.

Texti: Pétur Halldórsson