Vinnuhópur á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar hefur gefið út forskrift um hvernig best skuli staðið að ábyrgum kolefniseiningum á valkvæða markaðnum, framleiðslu þeirra, umsýslu og notkun á móti losun í grænu bókhaldi. Nokkrir fulltrúar frá Íslandi áttu sæti í hópnum, meðal annars frá Skógræktinni.

Norðurlöndin hafa tekið höndum saman um að leggja sitt til þeirrar baráttu að ekki hlýni um meira en eina og hálfa gráðu í heiminum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Mikilvægasta verkefnið er að draga úr losun til að markmiðið náist. Hins vegar er orðið ljóst að ekki dregur nægilega hratt úr losuninni. Til að langtímamarkmiðin náist er því talið mikilvægt að grípa jafnframt til mótvægisaðgerða sem binda kolefni eða koma í veg fyrir losun. Þetta gildir bæði um hið opinbera og fyrirtæki eða stofnanir á einkamarkaðnum. Auk þess að þessir aðilar vinni að því að draga úr losun sinni er mikilvægt að gera þeim kleift að ráðast í mótvægisverkefni sem flýta fyrir því að árangur náist.

Á þetta er bent í samantekt frá vinnuhópnum sem birt hefur verið á vef norræna samstarfsins, norden.org. Vinnuhópurinn fékk heitið The Nordic Dialogue on Voluntary Compensation og í honum voru fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum, bæði frá hinu opinbera og úr einkageiranum. Hópurinn tók til stafa í júní 2021 og fékk það hlutverk að búa til leiðbeiningar eða forskrift um bestu mögulegu aðferðir við framleiðslu, umsýslu og notkun ábyrgra kolefniseininga á valkvæða markaðnum, þ.e.a.s. hjá lögaðilum sem er ekki skylt að eiga kvóta á móti losun sinni, a.m.k. enn sem komið er.

Forsendan ábyrgir starfshættir

Hópurinn bendir á að valkvæð notkun á kolefniseiningum geri aðilum kleift að auka framlag sitt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, flýta fyrir mótvægisaðgerðum og þar með árangri í loftslagsmálum. Forsendan sé þó að tryggja megi ábyrga starfshætti bæði gagnvart umhverfi og samfélagi. Til að valkvæð kolefnisverkefni geri örugglega sitt gagn í loftslagsbaráttunni verði að tryggja traust, ráðvendni, gagnsæi og heiðarleika í öllu ferlinu. Það þýðir meðal annars að lögaðili skuli einungis nota kolefniseiningar til viðbótar við þær aðgerðir sem hann getur ráðist í til að draga úr losun sinni, ekki sem friðþægingu í staðinn fyrir að draga úr losun. Bókhald um notkun á bindingu á móti losun þarf að vera gegnsætt og ábyrgt og einungis notaðar hágæða kolefniseiningar sem standa örugglega fyrir raunverulega bindingu sem staðfest er og vottað að hafi raunverulega þegar átt sér stað. Bent er á að jafnvel þótt þau meginviðmið sem þarna þurfi að styðjast við séu vel þróuð sé umhverfi þessara mála enn í deiglunni og það sama sé að segja um túlkun þeirra á vettvangi Parísarsamkomulagsins.

Vinnuhópurinn telur að Norðurlöndin geti lagt mikilvægan skerf til þessarar þróunar, bæði á heimavelli og alþjóðlega, enda hafa kolefnismarkaðir verið í þróun á Norðurlöndunum frá aldamótum. Norrænt samstarf sé góður vettvangur til að tengja saman aðila, bæði á heimavelli og alþjóðlega, en einnig upplögð deigla til að deila reynslu og sameiginlega þekkingarleit.

„Forskriftin“

Afrakstur starfs vinnuhópsins er nokkuð sem kallað er á ensku Nordic Code of Best Practice for the Voluntary Use of Carbon Credits eða „The Code“ í styttri útgáfu. Langa titilinn mætti útleggja á íslensku sem Norræna tækniforskrift um bestu starfshætti fyrir valkvæða notkun kolefniseininga. Við gætum því talað um „forskriftina“ til styttingar.

„Forskrift“ þessi gæti orðið mikilvægur þáttur í því að viðkomandi land þar sem henni er beitt hverju sinni nái loftslagsmarkmiðum sínum eða jafnvel gott betur en það. Vinnuhópurinn leggur til að sett verði á fót norrænt ráð um vandaða starfshætti sem nýti þá reynslu og lærdóm sem fæst af fyrstu verkefnunum til að vinna stöðugt að endurbótum og þróun. Nauðsynlegt sé líka að kynna þessar aðferðir vel og fylgjast með alþjóðlegri þróun á þessu sviði. „Forskriftin“ sé góð byrjun sem þróa megi áfram, auka og bæta. Jafnframt þurfi að styðja vel við þetta starf og innleiðingu þessara viðmiða í víðu samhengi. Að sjálfsögðu er það líka gæðastimpill að þetta starf skuli vera unnið undir handarjaðri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Framlag Íslendinga

Í norræna vinnuhópnum sátu 34 fulltrúar, þar af fjórir frá Íslandi, Gunnlaugur Guðjónsson frá Skógræktinni, Arnar Gauti Guðmundsson frá Icelandair, Haukur Logi Jóhannsson frá Staðlaráði og Guðmundur Sigbergsson frá Loftslagsskrá Íslands (International Carbon Registry eða ICR). Þá ræddi hópurinn við ýmsa fleiri aðila, til dæmis Íslendingana Einar Bárðarson hjá Votlendissjóði, Ragnhildi Freysteinsdóttur hjá Skógræktarfélagi Íslands og Gunnlaug hjá Skógræktinni. Hann hefur farið fyrir þróun Skógarkolefnis, fyrsta viðurkennda staðalsins um ábyrg, vottuð kolefnisverkefni á Íslandi sem gefa viðurkenndar kolefniseiningar með nýskógrækt, Nánar má fræðast um forskriftina og vinnuna að henni á vef Norrænu ráðherranefndarinnar. Um Skógarkolefni má lesa nánar hér.

Texti: Pétur Halldórsson