Skóg­ræktar­fólk með skófl­ur á lofti í Þing­valla­sveit um helg­ina. Ljós­mynd: ​Ragn­hild­ur Frey­…
Skóg­ræktar­fólk með skófl­ur á lofti í Þing­valla­sveit um helg­ina. Ljós­mynd: ​Ragn­hild­ur Frey­steins­dótt­ir

Alls níutíu birki-, reyni- og blæaspartré voru gróðursett í Vinaskógi í Þingvallasveit laugardaginn 27. júní þar sem Skógræktarfélag Íslands minntist þess að þennan dag voru 90 ár liðin frá stofnun félagsins. Formaður þess, Jónatan Garðarsson, segir bagalegt að boðuð hækkun á framlögum til skógræktar skuli hafa að nokkru gengið til baka. Setja þurfi skýr markmið og auka skógrækt verulega næstu ár og áratugi.

Morgunblaðið fjallar um þennan viðburð og ræðir við Jónatan sem segir meðal annars að Íslendingar séu eftirbátar nágrannaþjóða eins og til dæmis Íra, þegar litið er til þess að breiða skóglendi út á ný. Jónatan segir:

„Skógræktarstarf á Íslandi hefur jafnan byggst á áhuga fólks og hugsjónum sem aldrei hafa slokknað. Þá er mjög ánægjulegt að ungt fólk er virkt í starfinu, verið er að stofna ný skógræktarfélög og víða um landið er verið að gróðursetja plöntur í nýjum landgræðsluskógum,“ segir Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið. Í ávarpi sem Jónatan flutti í Vinaskógi í tilefni afmælisins sagði hann mörg, stór og háleit markmið fram undan í skógræktinni. Nú sé um eitt og hálft prósent landsins vaxið skógi eða kjarri. Íslendingar séu eftirbátar annarra Evrópuþjóða í skógræktarmálum, en hafi þó í mörgu tilliti náð góðum árangri og góð þekking hefur skapast á umliðnum árum. Skógræktarfélögin um allt land, sem eru alls um 60 með um 7.500 félagsmenn, eigi stóran þátt í þeim viðsnúningi sem orðið hafi.

„Það eru margir fallegir skógarreitir víðs vegar um landið, sem eru nýttir til útivistar og yndisauka jafnt sumar sem vetur,“ sagði formaðurinn.

Hækkun framlaga gengið til baka

Ísland og Írland voru í svipaðri stöðu um aldamótin 1900 hvað skógareyðingu varðar. Írsk stjórnvöld fóru í stórátak í skógrækt og nú eru 11% Írlands þakin skóglendi og stefnt er að því að innan fárra ára verði 17% landsins skógi vaxin. Í mörgum Evrópulöndum sé flatarmál skóganna allt að 30% landanna allra.

„Við ættum að setja okkur skýr markmið og auka skógrækt verulega næstu ár og áratugi. Það mun skila sér margfalt til baka þegar fram líða stundir,“ segir Jónatan. Hann bætir við að því sé bagalagt, að boðuð hækkun á opinberum framlögum til skógræktarstarfs undir formerkjum loftslagsmála hafi að nokkru gengið til baka. Komi þar m.a. til þrengingar og breytt forgangsröðun í rekstri ríkissjóðs, til dæmis vegna kórónuveirunnar.

Skilar afurðum

Vinaskógur er í Kárastaðalandi og er 25 hektrara spilda skammt sunnan og vestan við þjóðgarðinn á Þingvöllum. Gróðursetning þar hófst árið 1990 í tengslum við átak við ræktun Landgræðsluskóga. Hugmyndin var sú að þjóðarleiðtogar sem heimsækja Ísland eða fulltrúar ýmissa þjóða gróðursettu þar trjáplöntur. Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, var verndari þessa starfs og fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn sem kom í Vinaskóg og gróðursetti tré var Elíasabet 2. Englandsdrottning.

„Skógurinn hefur dafnað ágætlega á þessum þrjátíu árum sem eru liðin frá því að Vinaskógur varð að veruleika, og skógar á Íslandi hafa breyst úr því að vera eingöngu lágvaxið kjarr í skógarsvæði sem eru farin að gefa af sér byggingarvið og fleiri afurðir,“ sagði Jónatan í Vinaskógi.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson