Mynd af vef NordGen
Mynd af vef NordGen

Fagfólk og nemendur í skógrækt og skógvísindum, einkum á sviði plöntuframleiðslu og endurnýjunar skóga, getur nú sótt um ferðastyrki til að sækja ráðstefnur á vegum skógasviðs NordGen eða taka þátt í rannsóknarsamstarfi. Umsóknarfrestur er til 12. febrúar. Dæmi um styrkhafa frá síðasta ári er Diana Marčiulynienė frá Litháen sem nýtti styrkinn til Svíþjóðarferðar þar sem hún tók þátt í rannsóknarverkefni.

Skógasvið Nordgen og Norrænar skógrannsóknir (SNS) standa sameiginlega að þessum styrkveitingum enda skiptir miðlun þekkingar og reynslu miklu máli fyrir þróun skógræktar á Norðurlöndunum. Styrkirnir eru fyrst og fremst ætlaðir fagfólki í skógrækt, plöntuframleiðslu eða endurnýjun skóga á Norðurlöndum. Hver umsækjandi getur fengið að hámarki 25.000 norskar krónur í styrk, tæpar 380.000 íslenskar krónur. Styrknum er fyrst og fremst ætlað að standa undir ferðakostnaði. Verkefnið sem sótt er um styrk til þarf að skipta máli í norrænu samhengi og stuðla að norrænum ávinningi.

Þátttaka í rannsóknarverkefni

Meðal þeirra sem fengu námsstyrk árið 2021 var Diana Marčiulynienė frá Litháen. Hún sótti um styrkinn sem doktor við litháísku rannsóknarmiðstöðina í landbúnaði og skógrækt. Styrkinn, 10.000 norskar krónur, fékk hún fyrir ferðakostnaði til Alnarp í Svíþjóð, þar sem hún er nú komin í stöðu nýdoktors við sænska landbúnaðarháskólann SLU. Fagsvið hennar er skógarmeinafræði og fæst hún því við sjúkdóma og skaðvalda í skóginum. Í Alnarp tók hún þátt í mánaðarlöngu rannsóknarverkefni undir forystu Iva Franic og Michelle Cleary við skógrannsóknarstofnun Suður-Svíþjóðar, Institutionen för sydsvensk skogsvetenskap. 

„Þetta rannsóknarverkefni beinist að því hvernig sjúkdómar dreifast frá fræjum yfir í plöntur, svokölluð lóðrétt smit, nokkuð sem mjög lítið er vitað um. Sjúkdómar í skógrækt eru stórt vandamál og við þurfum að afla allrar þeirrar þekkingar sem við getum til að koma megi upp lífseigum og heilbrigðum skógum í framtíðinni“, segir Diana.

Jákvæð reynsla

Verkefni Diönu snerist um að örva spírun beyki- og furufræja á rannsóknarstofu. Hún segir mikilvægt að nemendur og fagfólk í skógrækt sæki um þá styrki sem í boði eru. Í Svíþjóð séu fleiri tækifæri fyrir nemendur og unga vísindamenn, enda erfitt að fá sambærilega námsstyrki í Litháen. „Ég held ég hafi verið sá fyrsti úr deildinni minni til að fá styrkinn frá NordGen og SNS. Hins vegar veit ég um nokkra nemendur sem hafa hug á að sækja um námsstyrkinn núna,“ segir hún.

Skógræktarstyrir NordGen og SNS

Á þessari síðu er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar um námsstyrkinn. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar. Í apríl verður tilkynnt hverjir hafi hlotið styrki. Árið 2021 bárust 14 umsóknir áður en umsóknarfrestur rann út og deildu átta styrkhafar samtals 100.000 norskum krónum sem nemur tæplega 1,5 milljónum íslenskra króna.

Sækja um

Fyrri styrkhafar

  • Hafið samband ef nánari upplýsinga er óskað: sns@slu.s