Íslensku þátttakendurnir bregða á leik með söng á afmælishátíð SNS. Frá vinstri: Salóme Hallfreðsdót…
Íslensku þátttakendurnir bregða á leik með söng á afmælishátíð SNS. Frá vinstri: Salóme Hallfreðsdóttir úr matvælaráðuneytinu og svo fulltrúar Skógræktarinnar, Hjördís Jónsdóttir, Edda S. Oddsdóttir, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Valgerður Jónsdóttir og Aðalsteinn Sigurgeirsson. Ljósmynd: SNS/Anna Meisner Jensen

Auglýst er eftir umsóknum um námsstyrki til fólks sem stundar nám á sviði fjölgunarefnis í skóg­rækt, fræ- og stiklinga­framleiðslu og ræktun skógarplantna en einnig kynbóta á skógartrjám. Náms­styrkirnir eru á vegum SNS og skógasviðs norrænu erfða­vísinda­stofnunar­innar NordGen.

Úr fréttabréfi SNS 15. desember 2022Frá þessu greinir í fréttabréfi norræna skóg­rannsókna­samstarfs­ins SNS sem nýkomið er út. Verkefni sem sótt er um styrki til þurfa að hafa gildi fyrir skóga og skógrækt á Norðurlöndunum. Hámarksstyrkur sem sækja má um eru 25.000 norskar krónur sem nema tæpum 360.000 íslenskum. Styrkinn má nýta í ferðakostnað og gistingu, ráðstefnugjöld, prentun lokaritgerðar, búnað, kostnað á rannsóknarstofu eða annað sem er í þágu norræna skógargeirans með einum eða öðrum hætti. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar 2023 en nánari upplýsingar eru á vef SNS.

Í fréttabréfi SNS er líka vísað á myndbönd þar sem fyrri styrkhafar segja frá því hvernig námsstyrkir SNS og NordGen nýttust þeim.

Þá eru einnig í fréttabréfinu myndir, myndbönd og frásagnir frá hálfrar aldar afmælishátíð SNS sem haldin var í Alnarp í Svíþjóð 18. nóvember. Raija Laiho, prófessor hjá finnsku auðlinda­stofnuninni LUKE, segir frá kostum norrænnar samvinnu og hvernig þessir kostir hafa nýst í rannsóknasamstarfinu CAR-ES þar sem í brennidepli voru framsæknar rannsóknir á hvers kyns vistkerfisþjónustu norrænna skóga. Loks er í fréttabréfinu sagt frá norrænni ráðstefnu um hreindýrahjarðmennsku sem haldin var á vegum NKJ, norræna samstarfsráðsins um landbúnaðarrannsóknir 10.-11. nóvember. Þar var m.a. fjallað um líkleg áhrif loftslagsröskunar á hreindýrahjarðmennsku og ýmis vandamál sem að steðja, svo sem ágang rándýra.

Fréttabréf SNS kemur út mánaðarlega með rafrænum hætti og áskrift er ókeypis.

Texti: Pétur Halldórsson