Stundum þarf að búa land undir skógrækt með jarðvinnslu til að tryggja góðan árangur og nýta fjármun…
Stundum þarf að búa land undir skógrækt með jarðvinnslu til að tryggja góðan árangur og nýta fjármuni sem best. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands heldur 26. nóvember námskeið um undirbúning lands til skógræktar. Námskeiðið er öllum opið og vakin er athygli á því að flest stéttarfélög styrkja félagsfólk sitt til endurmenntunar sem þessarar.

Auglýsing fyrir námskeiðiðNámskeiðið er haldið í samstarfi við Skógræktina og þar fjallar Valdimar Reynisson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, um mismunandi landgerðir og helstu eiginleika þeirra, svo sem frjósemi, rakastig, tegundaval og hvaða jarðvinnsluaðferðir sem henta í mismunandi landgerðir. Fjallað verður um undirbúning lands til skógræktar með tilliti til ólíkra aðstæðna og hvaða möguleikar eru til staðar, hver er tilgangurinn, mögulegur ávinningur og kostir og gallar.

Kynntir verða mismunandi þættir í undirbúningi lands til skógræktar, s.s. uppgræðsla, hvenær þarf að græða upp, mismunandi uppgræðsluaðferðir og áburðargjöf. Jarðvinnsla og mismunandi jarðvinnsluaðferðir eru kynntar, farið ítarlega í hverja aðferð fyrir sig þar sem kostir og gallar eru metnir. Einnig er fjallað um slóðagerð, hvað þurfi að hafa í huga við lagningu slóða og mismunandi aðferðir kynntar.

Farið verður í vettvangsferð í nærliggjandi skóg og mikilvægt að klæðast eftir veðri.

Kennari er Valdimar Reynisson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni. Valdimar er með langa reynslu í skógrækt, hann lauk námi frá Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1990 af námsbrautinni Skógur og umhverfi, BS-gráðu í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands 2007 og meistaraprófi í skógarstjórnun (forest management) frá SLU í Svíþjóð 2011. Hann hefur starfað við allt sem viðkemur skógrækt, sem vélamaður, skógarhöggsmaður, verkstjóri, skógarvörður, verktaki og skógræktarráðgjafi.

Staður: Hjá LBHÍ á Hvanneyri og í nærliggjandi skógi

Tími: 26. nóvember kl. 10-16

Verð: 33.000 kr. (innifalið í verði er kennsla, kaffiveitingar og léttur hádegisverður)

Athygli er vakin á að flest stéttarfélög styrkja félagsmenn sína
til að sækja nám og námskeið

Sækja um