Hallur Björgvinsson og Jón Þór Birgisson, skógræktarráðgjafar hjá Skógræktinni, leiðbeina um ræktun jólatrjáa á námskeiði sem Endurmenntun LbhÍ heldur á Reykjum í Ölfusi 5. og 6. nóvember. Leiðbeint verður um tegundir jólatrjáa, ræktun þeirra, sýnd dæmi frá Danmörku og farið í vettvangsferð.

Mikil þróun og vöxtur hefur verið í skógrækt hér á landi og þar á meðal í ræktun á jólatrjám. Ræktendur jólatrjáa þurfa að huga vel að því að velja til ræktunar jólatré sem henta aðstæðum á landi þeirra sem og að velja þá ræktunaraðferð sem hentar á hverjum stað.

Á námskeiðinu fjalla reyndir skógræktarráðgjafar hjá Skógræktinni um þá reynslu sem orðin er til hér á landi í ræktun jólatrjáa. Skoðaðar verða tilraunaniðurstöður í ræktun jólatrjáa hér á landi og kynnt hvernig ræktun er undirbúin með tilliti til ólíkra aðstæðna.

Þátttakendur læra hvaða trjátegundir er helst verið að rækta á Íslandi og fá góða innsýn í hvernig standa skuli að umhirðu ræktunarinnar til að fá sem besta nýtingu. Jafnframt eru tekin dæmi um hvernig Danir standa að sinni jólatrjáaræktun og farið í vettvangsferð.

Námskeiðið er hluti af námskeiðaröðinni Grænni skógar I sem einingabært nám á framhaldskólastigi á vegum Endurmenntunar LbhÍ.

  • Kennsla: Hallur Björgvinsson og Jón Þór Birgisson, skógræktarráðgjafar hjá Skógræktinni
  • Tími: Fös. 5. nóv, kl. 16-19 og lau. 6. nóv, kl. 9-16 hjá LbhÍ á Reykjum í Ölfusi
  • Verð: 39.000 kr. (innifalið í verði er kennsla, námskeiðsgögn, kaffi og hádegismatur)

Hagnýtar upplýsingar: Minnt er á að flest stéttarfélög styðja vel við félagsmenn sína í að sækja nám og námskeið.