Húsgagnagerðarnámskeiðin sem Landbúnaðarháskólinn og Skógrækt ríkisins héldu í fyrravetur víða um land voru afar vel sótt og þótti rétt að bjóða aftur upp á þau í haust. Reynslan sýndi að þau sótti fólk úr ýmsum áttum, s.s. skógareigendur, sumarbústaðarfólk sem sumt á 20–30 ára gamlan skóg sem það vill geta nýtt grisjunarefnið úr, húsasmiðir, húsgagnasmiðir, kennarar sem þegar stunda skógartengt útinám og vilja þróa sín verkefni og aðrir sem vilja finna sér skapandi viðfangsefni í frítíma sínum með því að nýta efni úr nærumhverfinu.

27092012-(3)27092012-(1)Þegar nær dróg námskeiðstímanum í september fylltist það og einnig námskeiðið í október og biðlistar mynduðust. Námskeiðin eru haldin á föstudagssíðdegi fram á laugardagseftirmiðdag. Farið er í gegnum grunnþætti tálgunar og notkun bitáhalda í vinnu með blautt og þurrt efni og samsetningu þess. Brýning og umhirða bitáhalda er mikilvægur þáttur og beiting þeirra. Byrjað er á því að vinna frummyndir að húsgögnum eða leikföngum og síðan farið í stærri verkefni, búin til tréhamar úr reyni, kollur úr ösp og greni og að síðustu gerður bekkur með sömu aðferðum. Yfirborðsmeðhöndlun og fullnaðar frágangur næst ekki á þessum tíma enda sumt efnið ennþá ferskt og bíður því áframhaldandi vinnu þegar heim er komið.

Viðbrögð þátttakenda og umsagnir í námskeiðsmatinu staðfesta að þessi verkefni og vinnulag höfða til þeirra og veita ánægju og reynslu sem einhvers virði er.

Leiðbeinendur á námskeiðunum eru Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins og Ólafur G. E. Sæmundsen, fyrrverandi starfsmaður Viðarmiðlunar Skógræktar ríkisins.

 

Myndir og texti: Ólafur Oddsson