Um helgina var haldið námskeið fyrir nýja kennara í Reykjavík sem munu taka þátt í verkefninu "Lesið í skóginn með skólanum".  Alls tóku 15 kennarar frá 6 skólum í Reykjavík og einum í Kópavogi þátt í námskeiðinu og bætast þeir við þá 10 skóla sem þegar taka þátt í verkefninu.

Á námskeiðinu var miðlað reynslu frá eins árs þróunarstarfi og lögð áhersla á þætti er lúta að samþættingu náms, skógarferðum og útinámi, tálgutækni og viðarfræðum svo og skógarhirðu og grisjun.  Námskeiðið fór fram á Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá, og stóð yfir í 14 kennslustundir og var haldið í samvinnu Skógræktarinnar og Kennaraháskóla Íslands.

Á myndinni er Helga Ólafsdóttir náttúrufræðikennari í Hvassaleitisskóla að kynna hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmd skógarferðar skólans í skóginn í Fossvogi.  (mynd: sr/ólo)