Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins, hefur undanfarnar vikur boðið kennurum í ýmsum grunnskólum upp á skógarnámskeið. Námskeiðinu er skipt upp í fimm stöðvar þar sem unnið er að ólíkum viðfangsefnu á fimm stöðvum. Þátttakendum er skipt niður í hópa og dvelur hver hópur í 20 mín. á hverri stöð, en að lokum hafa allir dvalið á öllum stöðvunum.

Á fyrstu stöðinni er fjallað um mikilvægi rjóðursins og eldstöðvarinnar og hvernig má byggja hana upp með tækjum og aðstöðu. Á annarri stöð fá þáttakendur að kynnast grundvallarþáttum skógarvistfræðinnar og umhirðu skógarins. Á þeirri þriðju nota þátttakendur gamlar og nýjar aðferðir við að mæla ólíka þætti skógarins s.s. þéttleika trjáa, hæð, aldur og timburmagn. Á fjórðu stöðinni er farið í gamla leiki víkinganna og þá sérstakelga þar sem notað er efni úr skóginum til að búa til þrautir fyrir nemendur og láta þá taka þátt í að útbúa það sem til þarf. Á fimmtu stöðinni er fjallað um upplifanir og sköpun í skógarumhverfi og hvernig má þjálfa nemendur í að njóta skógarumhverfis með margvíslegum hætti.

Myndirnar eru teknar á skógarnámskeiði fyrir starfsmenn Fossvogsskóla, en þeir eru hér að mæla tré. Námskeið Fossvogsskóla fór fram í Ræktunarstöð borgarinnar í Fossvogi sem var á árum áður ræktunaraðstaða og plöntusala Skógræktarfélags Reykjavíkur, enda er trjágróður þar fjölbreyttur og vöxtulegur. Námskeiðið er liður í því að Fossvogsskóli hyggst gerast samstarfsaðili LÍS og efla með því útinám í skógarumhverfi, en skólinn er afar vel staðsettur m.t.t. þess, þar sem hann liggur í botni Fossvogsdalsins mitt á milli Elliðaárdals og Fossvogsstöðvarinnar.