Framhaldsskólanemar læra um gildi skóga í vettvangsferð um Lanjak Entimau dýraverndarsvæðið í Sarawa…
Framhaldsskólanemar læra um gildi skóga í vettvangsferð um Lanjak Entimau dýraverndarsvæðið í Sarawak, Malasíu. Mynd: Sarawak Forest Department

Alþjóðlega stofnunin um timbur úr hitabeltinu, ITTO, hefur ásamt IUFRO, alþjóðasambandi skógrannsóknarstofnana, gefið út röð námsefnispakka fyrir framhaldsskóla- og háskólanema til notkunar við kennslu um endurreisn skóglendis og skógarlandslags. Námsefnið er ókeypis.

Við slíka endurreisn eða endurhæfingu skóglendis er beitt fjölbreytilegum aðferðum til að koma löskuðu vistkerfi í fullan gang á ný og um leið að endurskapa með sjálfbærum hætti ýmis gæði sem skógarvistkerfi hafa í för með sér, bæði félagsleg og efnahagsleg. Þetta eru gæði sem nýtast fólkinu í viðkomandi byggðarlögum með margvíslegum hætti. En ekki er alltaf hlaupið að því að koma slíkri endurhæfingu í gang því að mörgu er að hyggja. Til þess að góður árangur náist skiptir sköpum að fræða unga fólkið sem á að taka við keflinu.

Námsefnið nýja sem ITTO og IUFRO hafa þróað er innlegg í áratug Sameinuðu þjóðanna um endurreisn vistkerfa 2021-2030. Upp eru að vaxa sérfræðingar framtíðarinnar og framtíðarleiðtogar í stjórnmálum og atvinnulífi. Námsefninu um endurreisn skógarvistkerfa er sérstaklega ætlað að vekja athygli þessa hóps á því hversu mikilvægt er að endurreisa skógarvistkerfi og byggja upp á ný rofin og snauð landsvæði.

Við gerð námsefnisins var stuðst við nýjustu þekkingu á aðferðum við endurreisn skóglendis og skógarvistkerfa. Meðal annars er byggt á leiðbeiningum ITTO um endurreisn skógarlandslags í hitabeltinu, hagnýtum leiðbeiningum IUFRO um innleiðingu á endurreisn skógarlandslags, sömuleiðis á efni sem segir frá reynslu af slíkum verkefnum í Afríkum Asíu og Mið-Ameríku ásamt rafrænu námsefni FAO um sjálfbæra fjármögnun slíkra verkefna (sjá hlekki að neðan).

Alhliða námsefni sem má staðfæra

Þótt námsefnið sé einkum hugsað til notkunar í framhaldsskólum og háskólum í hitabeltinu má nýta það víðar, ekki síst til að efla kennslu í náttúrufræðigreinum, félagsvísindum, landbúnaði, loftslagsgreinum, umhverfisfræðum, skógrækt, landfræði og skipulags- og þróunarfræði. Námseiningarnar samanstanda af fjórum glærukynningum ásamt dreifiblöðum fyrir kennara og nemendur. Hverri kynningu fylgja dæmisögur og myndbönd ásamt spurningum og verkefnum til að vinna með.

  • Námsefnispakki 1 (meginreglur um endurreisn skóglendis) kynnir sex alþjóðlega viðurkenndar meginreglur um endurreisn skóglendis, fjallar um hugmyndagrundvöll þeirra og kynnir leiðarljós fyrir hverja meginreglu.
  • Námsefnispakki 2 (áætlanagerð og framkvæmd) fer ofan í ferlið við endurreisn skóglendis, allt frá hönnun eða áætlanagerð verkefna upp í útfærslu þeirra á vettvangi og framkvæmdir til lengri tíma.
  • Námsefnispakki 3 (að skapa jarðveg, efla þekkingu og færni) skoðar þá færni sem fólk þarf til að koma endurreisn skóglendis í kring.
  • Námsefnispakki 4 (að tryggja fjármagn) kannar leiðir til að afla fjármagns til að ráðast í verkefni við endurreisn skóglendis.

Námsefnispakkana má svo aðlaga aðstæðum og staðháttum í hverju landi eða svæði fyrir sig, til dæmis með því að setja þar inn heimafengin dæmi um endurreisn skóglendis.

Styður við heimsmarkmiðin

Þessi námsefnisgerð styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Fyrst má nefna markmið 4 um góða menntun því endurreisn skóglendis er flókið málefni sem krefst víðtæks samstarfs og þar með góðrar menntunar uppvaxandi kynslóða. Markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög bendir á að heilbrigð vistkerfi skipti sköpum fyrir heilbrigði mannlegra samfélaga og fyrir sjálfbæran bata. Endurreisn skóglendis hamlar gegn loftslagsbreytingum með því að binda kolefni í standandi gróðri og afurðum skóganna. Hún er því einnig í anda markmiðs 13 um loftslagsaðgerðir. Í markmiði 15 er fjallað um líf á landi og það rímar við endurreisn skóglendis af því að í trjám og skógum er margt að finna sem stuðlar að heilbrigðum og þrautseigum vistkerfum sem hagnast bæði fólki og náttúrunni. Að lokum er nefnt markmið 17 sem hvetur til samvinnu um markmiðin. Verkefni um endurreisn skógarvistkerfa hjálpar auk þess til við að ná markmiðum áratugar um endurreisn vistkerfa sem nú er hafinn hjá Sameinuðu þjóðunum.

Námsefnið er ókeypis og öllum aðgengilegt. Gerð þess naut stuðnings CPF sem er samstarf helstu stofnana heims um skóga. Einnig hlaut hún fjármagn frá sjóðnum Global Environment Facility undir hatti sérstaks verkefnis sjóðsins sem á að stuðla að samvinnu um og framkvæmd verkefna um endurreisn skóglendis, Fostering partnerships to build coherence and support for FLR

Námsefnispakkar og dreifibréf til niðurhals (á ensku) á vef IUFRO

Hlekkir á ítarefni

 Texti: Pétur Halldórsson