Á myndinni sést átján ára gamall „Hrymur“, Larix decidua x sukaczewii, 
ásamt fagráði skógræktar. F…
Á myndinni sést átján ára gamall „Hrymur“, Larix decidua x sukaczewii,
ásamt fagráði skógræktar. Frá vinstri: Bjarni Diðrik Sigurðsson,
Jón Loftsson, Björn Barkarson, Þröstur Eysteinsson,
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir
og Brynjólfur Jónsson.

„Hrymur“ vex margfalt betur en „Gutti“ í tilraunareit á Héraði

Þessi mynd var tekin af fagráði skógræktar í skoðunarferð sem farin var eftir fagráðsfund á Mógilsá 6. maí. Þar var meðal annars litið á þann ótrúlega árangur sem kynbótaverkefni undir stjórn Þrastar Eysteinssonar hefur borið. Í verkefninu er frjóvgað saman rússalerki og evrópulerki og útkoman er blendingsyrkið „Hrymur“. Í tilraunareit á Höfða á Völlum á Héraði vex Hrymur nærri fjórfalt meira en lerki úr Guttormslundi.

Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins, gerði vaxtarmælingar á tilraunareitnum á Höfða þar sem gróðursett voru tvö lerkiyrki sama árið, annars vegar lerki af fræi úr Guttormslundi í Hallormsstaðaskógi og hins vegar Hrymur. Mælingarnar sýndu að rúmmálsvöxtur og meðalársvöxtur er nærri 4 sinnum meiri hjá Hrym en lerkinu úr Guttormslundi sem við getum kallað „Gutta“. Meðalþvermál er 4,4 cm meira og meðalhæðin 1,8 metrum meiri. 

Þröstur Eysteinsson segir að þetta séu vissulega magnaðar tölur og ekki óeðlilegt að hugur skógræktarfólks fari á flug. Hins vegar verði að hafa í huga að þetta eru bara tveir litlir reitir og ekki megi draga of miklar ályktanir af þessum tölum. Lerkið úr Guttormslundi sé líka talsvert lakara en þau kynbættu yrki sem mest hafa verið notuð í íslenskri skógrækt undanfarna áratugi. Þessi staki samanburður á Gutta og Hrym á Höfða gefi semsé ekki vísindalegar niðurstöður en sé engu að síður vísbending. Ljóst sé að Hrymur er yrki sem lofar mjög góðu og hann vaxi trúlega talsvert betur en þau yrki sem hingað til hafa verið notuð hérlendis. Með frekari mælingum og samanburði verði á endanum mögulegt að vinna nokkuð áreiðanlegar spár um vöxt og viðarmyndun hjá Hrym miðað við önnur lerkiyrki eða -tegundir. Taka skal fram að trén sem sjást á myndinni af fagráði skógræktar eru ekki trén sem mæld voru á Höfða á Völlum heldur þremur árum eldri Hrymtré í skóginum á Mógilsá.


Tölur úr mælingum Lárusar Heiðarssonar á tilraunareitunum á Höfða á Völlum
Myndin er frá Litlu-Fellsöxl í Hvalfjarðarsveit. Stærri lerkitrén eru „Hrymur“
en þau minni jafngömul rússalerkitré.

Saga Hrymsverkefnisins er í stuttu máli sú að árið 2005 var stofnaður lerkifrægarður á Vöglum í Fnjóskadal í því skyni að tryggja betur framboð af þeim kvæmum sem reynast vel hér á landi. Þar er nú framleitt fræ af blendingi evrópulerkis og rússalerkis og hingað til hafa afkvæmatilraunir sýnt að Hrymur vaxi 40%-60% meira en rússalerki og sé að jafnaði beinvaxnari líka. Í svokölluðu Fræhúsi á Vöglum, háreistu gróðurhúsi, fer þessi framleiðsla fram en í helmingi hússins er líka úrvalsbirki sem ræktað hefur verið í sama tilgangi, að fá úrvalsfræ og þar með úrvalstré til skógræktar. Birkiverkefnið hefur ekki gengið sem skyldi og nú er meiningin að fjarlægja birkið úr Fræhúsinu og fylla húsið af lerki til að auka framleiðsluna á Hrymsfræi. Því hefur einnig verið fleygt innan Skógræktar ríkisins að reisa þurfi fleiri fræhús en ekkert hefur verið ákveðið enn í þeim efnum. Allt fræ til ræktunar á Hrym þarf að koma úr slíkri framleiðslu, í það minnsta þar til upp verða vaxnir lerkiskógar með yrkinu þar sem taka mætti fræ með góðri vissu um að upp af því yxi Hrymur.

Á efri myndinni sést átján ára gamall „Hrymur“, Larix decidua x sukaczewii, ásamt fagráði skógræktar. Frá vinstri: Bjarni Diðrik Sigurðsson, Jón Loftsson, Björn Barkarson, Þröstur Eysteinsson, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir og Brynjólfur Jónsson.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson