Skógræktarmenn í æfingabúðum í keðjusagarútskurði

Undir kjörorðunum „Teach Me Wood“ á vegum Leonardo Partnership verkefnisins hjá Evrópusambandinu héldu nokkrir Íslendingar til Eistlands fyrr í júnímánuði til þátttöku í „vinnubúðum“ í myndsúlugerð og kynningu á viðarvinnslu og skógrækt þar í landi.

Kynnisferðin hófst  9. júní og endaði þann 13. Dvalið var í Rakvere-héraðinu sem er um 100 km frá höfuðborginni Tallinn.  Flatt land, stórir akrar með korni og háir skógar einkennir landslagið á leiðinni frá Tallinn að Rakvere og yfirgefnir litlir bæir og blokkir fyrir verkafólk sem störfuðu áður á ríkisreknu búunum.

Megintilgangur ferðarinnar var að læra að skera út myndsúlu með keðjusög. Í Eistlandi er löng hefð fyrir myndskurði af þeirri gerð og mátti sjá slíkar súlur víða, dýr, fólk eða aðrar myndir.

 

Í Rakvere Ametikool verkmenntaskólanum var tekið á móti hópnum og kynnt fyrir honum eistneskt samfélag og menning. Þar mátti sjá muni sem orðið höfðu til í smíðakennslunni. Sagt er að Eistar séu lokaðir og seinteknir en harðduglegir eru þeir og vinnusamir. Meðal kennara í skólanum er Riho nokkur Mae.

Á leiðinni út á vinnusvæðið var farið  í áhugavert  glugga- og hurðaframleiðslufyrirtæki þar sem mátti sjá fallega, vandaða smíð og áhugaverðar lausnir á læsingum og frágangi í kringum glugga og hurðir.

  

Þá var gengið undir ítarlegri leiðsögn í gegnum timburvinnslufyrirtæki sem lagði áherslu á að nýta viðinn sem best en það þýddi m.a. að töluverður fjöldi starfsmanna vann við flokkun timbursins, sérvinnslu og smíðar af ýmsum toga. Það vakti athygli Íslendinganna hvað lítið var hugsað um öryggismál og heilsuvarnir starfsmanna, s.s. í lakkdeildinni og við vinnsluvélarnar.

Á námskeiðinu sem haldið var á yndislegum náttúrudvalarstað nær klukkutíma akstur utan við Rakvere bjuggu gestirnir í bjálkahúsum og unnið var undir berum himni með keðjusögum og skurðaáhöldum. Þátttakendur voru frá Íslandi, Eistlandi, Lettlandi og einn Dani sem að  vísu vann í Eistlandi við að skreyta leikskólalóð með útskornum dýrum og bolviðardrumbum til að auka hreyfifærni og leikgleði barnanna.  

Um svæðið rennur vatnsmikil á sem skiptir svæðinu og hár trjágróður og slegnar flatir settja svip sinn á svæðið. Grill, leiktæki og skýli margs konar mátti sjá víða. Hvert verkefni fékk einn sveran bol til að vinna með, ýmist úr sitkagreni, birki, eik, blæösp, hlyni og fleiri tegundum.

Guðjón S. Kristinsson, myndsúlugerðarmeistari Íslands, stýrði vinnunni, leiðbeindi nýgræðingunum Orra Víðissyni, fyrrverandi starfsmanni Skógræktarinnar á Vesturlandi, Björgvini Eggertssyni, endurmenntunarstjóra LbhÍ, Birni Jónssyni, framkvæmdastjóra Suðurlandsskóga, Ólafi G.E. Sæmundsen, fyrrverandi starfsmanni Viðarmiðlunar Skógræktarinnar og Ólafi Oddssyni, fræðslufulltrúa S.r.

  

Eftir því sem á vikuna leið fóru bolirnir að taka á sig margs konar myndir sem sóttar voru í víkingatímann, heiðnina og náttúru landsins. Það vakti athygli hversu lítið var lagt upp úr öryggisbúnaði við keðjusagarvinnuna og óneitanlega dálítið skrítið að sjá berfætt börn á stuttbuxum beita slíkum tækjum af miklu öryggi. Okkar bolir voru úr sitkagreni enda um 600 l hvor að rúmmáli.

  

Eftir mörg moskítóflugnabit og hitasvækju í öryggisbúningum fór skurðarfólkið að sjá myndsúlurnar taka á sig myndir. Þær voru að lokum reistar upp með margra manna handafli.

  

Eitt kvöldið var sett upp 10 km löng kanó-róðrarkeppni þar sem Björn og Björgvin lentu í öðru sæti. Gengið var um svæðið undir leiðsögn og fræðst um jarðsögu svæðisins, náttúru og menningu.

Á leiðinni til baka til Rakvere var komið við í litlu bjálkabyggingarfyrirtæki og hjá ríkisskógræktinni í Eistlandi þar sem  mikil trjáplöntu -og fræframleiðsla fer fram.

Daginn eftir sá Riho Mae um 12 km langa skógargöngu sem farin var um friðaðan mýrarskóg. Hann miðlaði óspart þekkingu sinni og reynslu af skóginum, sagði frá fuglum, trjám og botngróðri, sýndi hvernig skógurinn fór í storminum 2004 og hvernig skógurinn er nýttur af fólki í sveppa- og berjatínslu. Á einni myndinni má sjá moltuberjaplöntu. Þetta virtist vera mjög ríkjandi tegund á mörkum mýra og holta. Varla er þó hægt að kalla hæðirnar holt þar sem hæsti punktur yfir sjó í skóginum var 12 m. Komið var við í skólanum sem Riho kenndi í áður en hann fór að kenna í verkmenntaskólanum og þar sýndi hann okkur garð skólans sem var fullur af alls konar trémyndum eftir hann. Hann leiðbeindi síðan nemum sínum á námskeiðinu og vann jafnframt eigin myndsúlu. Hann lánaði fjölbreytt skurðaráhöldin sín sem hann hafði sjálfur gert í járnsmíði.

  

Námskeiðinu lauk síða á ferð í mjög gamlan kastala í Rakvere. Þar tók hópurinn þátt í alls konar upplifunarverkefnum sem ætlað var að færa þátttakendur nær gamla tímanum. Bogfimi var æfð, skylmingar með sverðum og gamlar vistarverur skoðaðar og draugalegt umhverfi. Síðan endaði samveran með sameiginlegum kvöldverði og þakkarkveðjum.

Texti og myndir: Ólafur Oddsson