Skjáskot úr myndbandinu. Bjarki Þór Kjartansson við mælitæki í asparskóginum í Sandlækjarmýri.
Skjáskot úr myndbandinu. Bjarki Þór Kjartansson við mælitæki í asparskóginum í Sandlækjarmýri.

Fylgst með sýnatöku og eftirliti

Kvikland ehf., kvikmyndafyrirtæki Hlyns Gauta Sigurðssonar skógfræðings, hefur sent frá sér tíu mínútna langt fræðslu­myndband um rannsóknarverkefnið Mýrvið sem fram fer í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í myndbandinu er fylgst með sýnatöku og eftirliti og áhorfendur fræddir um tilgang og markmið rann­sókn­ar­inn­ar.

Hlynur Gauti slóst í för með þeim Bjarka Þór Kjartanssyni, sérfræðingi á Rann­sóknastöð skógræktar, Mógilsá, og Quirinu Merz, nema við Zürich-háskóla í Sviss, þegar þau fóru til að vitja mælitækja og taka sýni í Sandlækjarmýri 13. nóvember í vetur. Bjarki Þór lýsir ítarlega í myndbandinu hver tilgangur rann­sókn­ar­inn­ar er, hvað sé verið að mæla og hvernig.

Í stuttu máli er markmiðið með Mýrviðarverkefninu að mæla kolefnishringrás í asparskógi sem ræktaður er í áður framræstri mýri. Þegar mýri er ræst fram hefst mikil rotnun lífrænna efna sem þýðir að kolefnislosun frá jarðvegi eykst mjög. Rannsóknin ætti að varpa ljósi á það til dæmis hvort skógurinn nær að vega upp losunina sem varð vegna framræslunnar eða jafnvel binda meira en losnar úr mýrinni.

Asparskógurinn í Sandlækjarmýri er um 70 hektarar að stærð og er mikilvægur vettvangur ýmiss konar rannsókna, ekki síst rannsókna sem nýtast munu við aukna ræktun iðnviðarskóga á Íslandi. Slík ræktun er stundum kölluð akurskógrækt og gæti orðið mikilvæg grein í landbúnaði á Íslandi á komandi árum. Sömuleiðis getur Mýrviðar­verkefnið sagt til um hvort vænlegt getur verið að stöðva nettólosun koltvísýrings úr framræstu landi með skógrækt.

Mýrviður er samvinnuverkefni Skógræktar ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

Sandlækjarmýri, Mýrviður, sýnatökur

Nánar um Mýrvið:

Tengt efni:

Texti: Pétur Halldórsson