Umhirða er nauðsynlegur þáttur í skógrækt, og engin ástæða til að sinna henni ekki. Hins vegar er mi…
Umhirða er nauðsynlegur þáttur í skógrækt, og engin ástæða til að sinna henni ekki. Hins vegar er mikilvægt, að fara rétt að, og bjóða ekki hættunni heim. Varast ber að klippa tré á haustin og fram eftir miðjum vetri þar sem vart hefur orðið verið barrviðarátu.

Varast ber að klippa tré á haustin þar sem vart verður við átu

Jafnvel þótt íslensku skógarnir séu lausir við ýmis vandamál, sem herja á skóga í öðrum löndum, er ekki þar með sagt, að við séum laus allra mála. Nýir sjúkdómar og meindýr geta borist til Íslands, og breytingar á veðurfari geta orðið til þess, að landlægir skaðvaldar færist í aukana. Í nýju myndbandi Skógræktarinnar er fjallað um sveppasjúkdóm sem kallast barrviðaráta.

Á Austurlandi hefur barrviðaráta tekið að herja á síberíulerki í vaxandi mæli síðustu árin, þar á meðal á svokölluð íslensk lerkikvæmi, sem líklegast er að séu blendingar rússalerkis og síberíulerkis.

Barrviðaráta getur drepið trén. Hún er sérstaklega skæð á haustin. Sveppgróin komast inn í trén, um sár og skemmdir á greinum eða bol. Í kjölfarið smitast yfirleitt fleiri nálæg tré, gegnum rótarkerfið.

Varast ber að særa trén, þegar þau eru að búa sig í dvala á haustin og fyrri hluta vetrar.

Umhirða á borð við tvítoppaklippingu, hvers konar grisjun, uppkvistun og þess háttar er því ekki æskileg á haustin, enda greiðir það sjúkdómnum leið milli trjáa, og getur orðið til þess að stór svæði skemmist.

Engu að síður, er mjög mikilvægt að skóginum sé vel við haldið. Til dæmis má hann ekki vera of þéttur, því þá er líklegra, að vindar og snjóalög skaði trén, og opni leiðir fyrir sjúkdóminn.

Best er að bíða með umhirðu fram í frost að vetri, þegar plantan er örugglega komin í dvala, eða sinna umhirðunni á sumrin, þegar tréð er í fullum vexti.

Ef tré er augljóslega sjúkt, er ekki ráðlegt að klippa það. Vilji svo til, að sýkt tré sé klippt, er vissara að hreinsa verkfærin. Gott er að skola þau vel með vatni, og enn betra að nota sveppadrepandi efni, til dæmis bleikiklór, til að ná af sveppagróum eða hvers lags sjúkdómsvöldum, af verkfærunum.

Umhirða er nauðsynlegur þáttur í skógrækt, og engin ástæða til að sinna henni ekki. Hins vegar er mikilvægt, að fara rétt að, og bjóða ekki hættunni heim.

Barrviðaráta, hvað skal varast?

Myndband: Hlynur Gauti Sigurðsson