Undanfarið hefur verið deilt um hvort fella skuli hæstu trén í Öskjuhlíðinni í Reykjavík, en flugmálayfirvöld með stuðningi Reykjavíkurborgar vilja fella trén. Hafa skógræktarmenn mótmælt þessari ákvörðun og var talið að sátt væri komin um málið. Eftir að nýju áhættumati var lokið á dögunum hefur nú verið ákveðið að trén skuli hverfa, enda hefur matið leitt í ljós að trén í Öskjuhlíðinni hafa vaxið verulega upp fyrir svokallaðan hindranaflöt vegna umferðar um Reykjavíkurflugvöll. Verða grisjunarverktakar fengnir til að fella skóginn strax á mánudag og trjábolirnir seldir í spæni. Helstu talsmenn skógræktar á Íslandi hafa ákveðið að mótmæla þessari ákvörðun, enda um að ræða einn fallegasta útivistarskóg á landinu sem ræktaður var af mikilli framfara hugsjón upp úr miðri síðustu öld. Ætla skógræktarmenn að búa sig vel út með nesti og hlý föt og hlekkja sig við tré í Öskjuhlíðinni. Búist er við fjölmenni og ætla m.a. Öskjuhlíðarkórinn að mæta á staðinn og taka nokkur lög til stuðnings skógræktarmönnum. Hefjast mótmælin kl. 16:00 í dag og er fólk hvatt til að koma í veg fyrir eyðileggingu Öskjuhlíðarskóga.


Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir