Hanna Kirkland frá Mossy Earth, Valdimar Reynisson skógræktarráðgjafi og Jón Auðunn Bogason skógarvö…
Hanna Kirkland frá Mossy Earth, Valdimar Reynisson skógræktarráðgjafi og Jón Auðunn Bogason skógarvörður á Vesturlandi í fallegum skógi í Skorradal. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Fulltrúi bresku sjálfseignarstofnunarinnar Mossy Earth var á Íslandi á dögunum til að kynna sér vernd og útbreiðslu íslenskra birkiskóga. Í kjölfarið var undirritaður samningur við Skógræktina um fyrsta verkefnið sem Mossy Earth fjármagnar hérlendis, gróðursetningu 50.000 birkiplantna á Bakkakotshálsi í Skorradal vorið 2022.

Þriðjudaginn 19. október var talsvert hvassviðri á landinu en þó bjart á Suðvesturlandi. Þann dag tóku nokkrir starfsmenn Skógræktarinnar á móti Hönnu Kirkland, sem er vistfræðingur hjá bresku sjálfseignarstofnuninni Mossy Earth. Mossy Earth hefur það að meginmarkmiði að endurheimta villt vistkerfi, efla dýralíf og líffræðilega fjölbreytni og hjálpa til við að berjast gegn loftslagsbreytingum. Verkefni þeirra eru fjármögnuð með aðkomu einstaklinga og fyrirtækja. Hægt er að lesa meira um það á vef þeirra: https://mossy.earth/

Hannah var hingað komin til að skoða íslenska birkiskóga í því sem næst náttúrlegustu ástandi og möguleg svæði til endurheimtar slíkra birkiskóga. Farið var í Skorradal, þar sem Vatnshornsskógur var skoðaður í bak og fyrir og farið upp á Bakkakotsháls. Síðan var Haukadalur heimsóttur og Haukadalsheiði skoðuð í hífandi roki þannig að rauk úr rofabörðum þrátt fyrir að þau væru blaut.

Viðræður hafa verið í gangi á milli Mossy Earth og Skógræktarinnar um samstarfsverkefni frá síðastliðnum vetri. Hafa báðir aðilar verið að átta sig á markmiðum hvor annars og hverjir möguleikarnir væru á samstarfi. Í ljós kom að lögbundin markmið Skógræktarinnar um að vernda og endurheimta birkiskóga, efla líffræðilega fjölbreytni og vinna að loftslagsmálum smellpössuðu við stefnu Mossy Earth. Þá var bara að finna stað til að byrja að vinna.

 Séð yfir Botnsheiði sunnan Skorradals. Í baksýn sést til Skjaldbreiðs t.v. og Hvalfells og Botnssúlna t.h. Þarna er illa farið land sem nú mun taka að breytast í birkiskóg á ný með hjálp Mossy Earth. Ljósmynd: Hlynur Gauti SigurðssonÞað kemur æ betur í ljós að svæði á heiðum uppi henta ágætlega fyrir birki. Mjög góðar vísbendingar um það má sjá á Hólasandi, Haukadalsheiði, við Húsavík og víðar. Sunnan Skorradals eru allmikil heiðarlönd í 250-400 m hæð yfir sjávarmáli í löndum Bakkakots, Vatnshorns og Stóru-Drageyrar. Þau eru þegar friðuð fyrir beit og í umsjá Skógræktarinnar. Um er að ræða uppblásið land að mestu, blöndu af melum og mosaþembum með grónari ræmum í lægðum. Í ferðinni þangað fundust líka örfáar sjálfsánar birkiplöntur sem vaxið hafa upp eftir friðun árið 2000. Upplagt land til endurheimtar birkiskóglendis.

Daginn eftir heimsóknina barst svo undirritaður samningur um gróðursetningu 50.000 birkiplantna í um 30 hektara svæði á Bakkakotshálsi næsta vor. Vonandi bara fyrsta verkefnið af mörgum með Mossy Earth.

Texti: Þröstur Eysteinsson
Sett á vef: Pétur Halldórsson