Spennandi verður að fá að skoða skóga Mosfellsbæjar í tengslum við aðalfundinn. Mynd af vef Skógrækt…
Spennandi verður að fá að skoða skóga Mosfellsbæjar í tengslum við aðalfundinn. Mynd af vef Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2022 verður haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022 og er Skógræktarfélag Mosfellsbæjar gestgjafi fundarins. Fundurinn verður haldinn í Hlégarði með áhugaverðum fræðsluerindum og einnig verða skógar sveitarfélagsins skoðaðir.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verður á dagskránni skoðunarferð þar sem skóglendi í Mosfellsbæ verður skoðað og á síðari degi ráðstefnunnar verða flutt nokkur fræðsluerindi. Samkvæmt drögum að dagskrá sem birt hafa verið á vef félagsins verður þar margt forvitnilegt í boði. Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóganna hjá Skógræktinni, fjallar um Þórsmörk í máli og myndum. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor hjá LbhÍ, ræðir um kolefni í drullunni og Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri, flytur hugvekju. Axel Kristinsson, formaður Trjáræktarklúbbsins, ræðir spurninguna af hverju ekkert arboret sé á Íslandi og Brynja Hrafnkelsdóttir ræðir um nýja skaðvalda á birki en hún er sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Loks verður erindi um gróðurelda í umsjón Dóru Hjálmarsdóttur, verkefnastjóra hjá Verkís, og Björns Traustasonar, formanns Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, sem einnig er landfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar.

Ráðstefnugjald er 12.000 krónur en að auki er hægt að kaupa hádegisverð föstudag og laugardag og hátíðarkvöldverð á lokakvöldi ráðstefnunnar. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á netfangið skraning@skog.is.

Sett á vef: Pétur Halldórsson