Allt útlit er fyrir að timburbyggingar muni rísa í vaxandi mæli á Íslandi á komandi árum eins og víð…
Allt útlit er fyrir að timburbyggingar muni rísa í vaxandi mæli á Íslandi á komandi árum eins og víða í heiminum. Sú þróun er þegar hafin. Ljósmynd frá Grænni byggð

Íslenskt límtré, húsgögn úr íslensku timbri og timburbyggingar verða til umfjöllunar ásamt umhverfisáherslum í Hafnarfirði á morgunfundi Grænnar byggðar sem haldinn verður kl. hálfníu fimmtudaginn 5. desember í Hafnarborg Hafnarfirði.

Í drögum að dagskrá frá Grænni byggð segir að Sigurður Haraldsson, formaður umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðar, muni ræða um umhverfisáherslur fyrir byggingar í Hafnarfirði. Logi Unnarson Jónsson byggingatæknifræðingur segir frá þróunarvinnu Límtrés Vírnets með límtrésframleiðslu úr íslensku viðartegundunum alaskaösp, sitkagreni, stafafuru og rússalerki.

Þá fjallar Sigurður Einarsson, arkitekt hjá Batteríinu arkitektum, um hönnun timburbygginga á Íslandi og Svava Björk Hjaltalín Jónsdóttir arkitekt fjallar líka um timburbyggingar.

Að hanna húsgögn úr íslensku timbri er umfjöllunarefni Björns Steinars Blumensteins hönnuðar og loks kynnir Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landsambands skógareigenda, um stöðu nytjaskóga á Íslandi.

Fundarstjóri verður Ragnar Ómarsson, stjórnarformaður Grænni byggðar og byggingarfræðingur hjá Verkís.

Texti: Pétur Halldórsson