Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga í sjónvarpsviðtali

Óvenjumikið er af brotnum trjám í Kjarnaskógi á Akureyri eftir veturinn. Veturinn var mildur og snjór gjarnan blautur. Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, sagði í spjalli við sjónvarpsstöðina N4 að snjóbrotið í vetur væri mun meira en verið hefur síðustu ár. Nokkuð hefði reyndar brotnað í fyrravetur en tjónið sé meira nú. Nú er mikið verk fram undan að hreinsa brotin tré og greinar úr skóginum og það verður nýtt eins og hægt er til eldiviðarvinnslu, segir Ingólfur.

Fram kemur líka í viðtalinu að undanfarin ár hafi mikið verið gert til að auka og bæta aðstöðu í Kjarnaskógi til útivistar. Ingólfur nefndi strandblakvelli, völundarhús og fleira en í sumar verður meðal annars komið upp nýju grillsvæði og leikvelli til að létta á því sem fyrir er enda aðsóknin að Kjarnaskógi mikil allt árið um kring. Áætlað er að um 150-200 þúsund gestir komi í skóginn á hverju ári.

Smellið hér til að horfa á viðtalið.