Brynhildur Davíðsdóttir bendir á að skógrækt sé eitt helsta vopnið sem Íslendingum sé tiltækt til að…
Brynhildur Davíðsdóttir bendir á að skógrækt sé eitt helsta vopnið sem Íslendingum sé tiltækt til að beita sér í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Tækifæri fyrir stóriðjuna til að leysa vandann innan lands

Við bestu aðstæður má rækta skóg á Ís­landi með svipuðum tilkostnaði og stór­iðju­verin greiða fyrir losunarheimildir á CO2. Með stærðarhagkvæmni mætti ná kostnað­inum við bindingu hvers tonns kol­tvísýrings niður undir þá fimm dollara sem losunar­heimild fyrir eitt tonn kostar. Í nýútkominni skýrslu er skógrækt ein af þeim lausnum í loftslagsmálum sem taldar eru geta borið mestan árangur fyrir Íslendinga.

Árið 2015 kom út alþjóðleg skýrsla með heitinu Green to Scale. Þar var lýst sautján loftslagsúrræðum og árangursríkum verk­efnum vítt og breitt um heiminn sem gætu orðið löndum heimsins til fyrirmyndar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Finnski nýsköpunarsjóðurinn Sitra fór fyrir þeirri rannsóknarvinnu sem að baki skýrslugerðinni lá og hefur í kjölfarið unnið að sambærilegu verkefni fyrir Norðurlöndin í samvinnu við norrænu ráðherranefndina. Það er svokallað Nordic Green to Scale verkefni.

Fimmtán norrænar lausnir

Þetta norræna verkefni var kynnt í liðinni viku á fundum bæði í Reykjavík og á Akureyri. Oras Tynkkynen, ráðgjafi og verkefnisstjóri hjá Sitra, greindi frá rannsóknarniðurstöðum og kynnti fimmtán norrænar lausnir sem víkka mætti út til alls heimsins og minnka þar með nettólosun gróðurhúsalofttegunda verulega. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, tók síðan við og setti þessar norrænu lausnir í samhengi við íslenskar aðstæður.

Ef þessar fimmtán norrænu lausnir væru víkkaðar út til alls heimsins er áætlað að draga mætti úr losun sem næmi 4,1 gígatonni koltvísýrings fram til ársins 2030. Það samsvarar allri losun í löndum Evrópusambandsins. Þessar fimmtán lausnir eru þó langt í frá þær einu sem tiltækar eru. Miklu fleiri norrænar lausnir standa til boða og margar eru í þróun.

Lausnirnar fimmtán skiptast í nokkra flokka, orku, iðnað, samgöngur, byggingar og heimilishald, landbúnað og skóga. Á fundinum á Akureyri, sem haldinn var í Hofi á fimmtudag, tiltók Brynhildur Davíðsdóttir þær lausnir sérstak­lega sem myndu bera mestan árangur fyrir Íslendinga. Þar var skógrækt efst á blaði ásamt samgöngumálum og landbúnaði þar sem ná mætti markmiðum með t.d. rafbílavæðingu, aukinni notkun lífeldsneytis í samgöngum, göngu og hjól­reið­um og metanvinnslu úr úrgangi frá landbúnaði.


Lerki sem gróðursett hefur verið í beran mel.

 

Að kaupa kolefniskvóta eða bindingu í skógi

Í skýrslu Nordic Green to Scale verkefnis­ins segir að kostnaður við bindingu á einu tonni koltvísýrings með skógrækt sé um 17 Bandaríkjadollarar. Mat á kostnaði við þá bindingu byggist á heildarkostnaði við landshlutaverkefnin í skógrækt og allur kostnaður reiknaður til fulls, m.a. allur stjórnunarkostnaður, kostnaður við grisjun og einnig framreiknaðir vextir eins og við hefðbundnar fjárfestingar. Þessum kostn­aði mætti ná verulega niður ef farið yrði út í stórtæk skógræktarverkefni á samfelldu landi og allri þeirri ræktunartækni beitt sem heldur kostnaði í lágmarki en trjávexti í hámarki. Með stærðarhagkvæmni mætti lækka til muna kostnað við stjórnsýslu, áætlanagerð, girðingar og fleira. Ef fyrirtæki kaupir kolefnisbindingu í skógi er jafnframt eðlilegt að líta á kolefnisbindinguna sem keypta þjónustu, ekki fjárfestingu, og því má draga í efa að rétt sé að reikna með vöxtum í kostnaðnaðartölunum.

En hvernig gæti þá dæmið litið út? Meðalbinding í ræktuðum skógi á Íslandi er samkvæmt Íslenskri skógarúttekt 7,7 tonn á hektara árlega miðað við 60 ára lotu. Við góðar aðstæður ætti grunnkostnaður við skógrækt ekki að vera hærri en 300.000 krónur á hektara. Þá er landverð ekki tekið með í reikninginn og ekki framreiknaðir vextir enda gert ráð fyrir að landeigandi eigi skóginn að samningi loknum. Á sextíu ára lotu bindast 460 tonn á hverjum hektara og samkvæmt því myndi binding hvers tonns kosta 652 krónur eða 5,77 Bandaríkjadollara, litlu meira en stóriðju­fyrirtæk­in þurfa að borga fyrir hvert tonn af losunarheimildum.

Verðið á þeim losunarheimildum á uppkaupamarkaði ESB fyrir losunarheimildir (ETS – Emissions Trading Scheme) sem stóriðjan á Íslandi kaupir er nú um 5 Bandaríkjadollarar fyrir hvert losað tonn. Samkvæmt því er ekki annað að sjá en það geti verið vænleg leið fyrir stóriðjuna að leggja fé í skógrækt í stað þess að kaupa losunarheimildir. Verð á losunarheimildum ETS er lágt um þessar mundir en ómögulegt er að segja til um hvernig það muni þróast á komandi árum. Verðið lækkaði þegar ljóst var orðið á Parísarráðstefnunni í lok árs 2015 að ekki yrði samið um bindandi skilyrði.

En til hvers?

Fjármagn sem rynni til skógræktar innan lands myndi ekki eingöngu spara gjaldeyri og binda koltvísýring í skógi um áratugi og aldir. Störf myndu skapast við ræktun og umhirðu skógarins. Undir skógræktina mætti taka land sem nú gefur lítið sem ekkert af sér en myndi með skógrækt margfalda verðmæti sitt og gefa mikla auðlind.

Þar fyrir utan bætir skógurinn jarðvegs­skilyrði, temprar vatnsrennsli, eflir lífríkið, fjölgar fuglum, bætir veðurfar og eykur grósku nálægra svæða, þar á meðal landbúnaðarlands. Á rýru og rofnu landi stöðvar skógurinn losun koltvísýrings úr rotnandi jarðvegi horfinnar gróðurþekju en í staðinn hefst mikil binding. Áhrif slíkrar loftslagsaðgerðar eru því mun víðtækari en sú binding sem mæld er í skóginum sjálfum. Því má segja að mjög margt fáist í kaupbæti ef skógrækt er valin í stað þess að kaupa kolefniskvóta.

Hafa ber í huga að raunkostnaður við skógrækt er mjög misjafn eftir aðstæðum, trjátegundum, landgerð og fleiri þátt­um. Því geta fengist mjög ólíkar niðurstöður með mismunandi forsendum. Sá möguleiki virðist þó vera fyrir hendi að kostnaðurinn við skógrækt geti verið svipaður og verð á losunarheimildum. Þann möguleika er því vert að kanna nánar.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson