Hópur starfsfólks Skógræktarinnar á Austurlandi sem fór í Steinadal á mánudag til að tína birki- og …
Hópur starfsfólks Skógræktarinnar á Austurlandi sem fór í Steinadal á mánudag til að tína birki- og stafafurufræ. Frá vinstri: Sigfús Jörgen Oddsson með sekk af stafafurukönglum, Jón Þór Tryggvason, Snorri Páll Jóhannsson með sekk af birkifræi, Þór Þorfinnsson með sekk af stafafurukönglum, Bjarki Sigurðsson, Borja Alcober og Þröstur Eysteinsson sem tók sjálfuna, einbeittur á svip. Í baksýn sést til stafafurureitsins í Steinadal.

Birki úr Steinadal í Suðursveit og Þórsmörk hefur komið mjög vel út í birkitilraunum um allt land og stendur Bæjarstaðabirki fyllilega á sporði hvað vaxtarþrótt og lifun varðar. Fræi er nú safnað af öllum þessum birkikvæmum til ræktunar á birkiplöntum í gróðrarstöðvum.

Hópur vaskra manna frá Hallormsstað og aðalskrifstofu Skógræktarinnar fór í leiðangur í Steinadal í Suðursveit mánudaginn 28. september. Í Steinadal er birkiskógur sem lítur ekki út fyrir að vera sérstakur og er í raun kjarr að mestu. Í tilraunum um land allt hefur sá efniviður hins vegar komið vel út, bæði í lifun og vexti. Í Steinadal er einnig gamall skógræktarreitur þar sem nokkuð er um stafafuru. Tilgangur leiðangursins var að safna fræi af birkinu og furunni og tókst það vel.

Þórsmerkurbirkið er nú hlaðið fræi og tínd hafa verið mörg kíló af því nú í haust til notkunar við plöntuframleiðslu. Ljósmynd: Hreinn ÓskarssonNokkrum dögum áður fór Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóganna, á Þórsmörk og safnaði um 50 lítrum af birkifræi þar, enda hefur Þórsmerkurbirki einnig komið mjög vel út í áðurnefndum tilraunum. Þá er búið að grisja lund með Bæjarstaðarbirki á Mógilsá og af felldu trjánum er einnig verið að safna fræi þessa dagana. Loks má nefna að til stendur að safna fræi af lundum Emblu og Bæjarstaðaúrvals á Tumastöðum, sem gefa úrvalsbirki, beinvaxið og yfirleitt hvítstofna.

Tilgangur þessarar birkifræsöfnunar á vegum Skógræktarinnar er að ná inn birgðum til að nota við plöntuframleiðslu í gróðrarstöðvum. Þetta er því til viðbótar við átakið til birkifræsöfnunar og -sáningar sem nú er í gangi og almenningur er hvattur til að taka þátt í (sjá birkiskogur.is ). Með söfnun á úrvalsbirki er einnig verið að auka erfðafræðilega fjölbreytni þess birkifræs sem notað er til plöntuframleiðslu. Undanfarin ár hefur nánast eingöngu verið notast við fræ upprunnið í Bæjarstaðaskógi. Bæjarstaðabirki hefur reynst hvað best um land allt en Steinadalsbirki og Þórsmerkurbirki eru síst lakari kvæmi.

Texti: Þröstur Eysteinsson
Sett á vef: Pétur Halldórsson