Í tengslum við kynningarfundinn var farið í vettvangsferð á svæðið í landi Mógilsár þar sem arboreti…
Í tengslum við kynningarfundinn var farið í vettvangsferð á svæðið í landi Mógilsár þar sem arboretinu er ætlaður staður. Frá vinstri eru: Sigurður Guðmundsson Trjáræktarklúbbnum, Pamela Diggle prófessor, Ned Friedman, forstöðumaður Arnold Arboretum, Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður Grasagarðsins í Laugardal, Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, Wilfried Emmerechts, skógarvörður konungseigna í Belgíu, Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, Axel Gíslason Trjáræktarklúbbnum, Karl Gauti Hjaltason alþingismaður og Vésteinn Rúni Eiríksson, formaður Trjáræktarklúbbsins. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Stofnun arborets eða fræðilegs trjásafns yrði mikilvægt innlegg í trjá- og skógræktarstarfið hérlendis að mati sérfræðinga frá erlendum arboretum sem töluðu á kynningarfundi um væntanlegt arboret í landi Mógilsár við Kollafjörð. Forstöðumaður eins þekktasta arborets í heiminum segir að samstarf og samskipti við önnur trjásöfn sé grundvallaratriði í starfi slíkra safna.

Á fundinum talaði fyrstur Axel Kristinsson sem farið hefur fyrir undirbúningshópi um arboret eða fræðilegt trjásafn á Mógilsá fyrir hönd Trjáræktarklúbbsins. Að verkefninu standa ásamt klúbbnum Skógræktin og Skógræktarfélag Reykjavíkur. Axel sýndi hugmynd að skipulagi safnsins. Ætlunin er að flokkun tegunda verði með tvennum hætti, bæði landfræðileg og eftir skyldleika tegundanna. Gert er ráð fyrir að reyna tegundir af sem flestum ættum trjákenndra plantna og sem víðast úr heiminum. Þess vegna er jafnvel gert ráð fyrir svæðum fyrir tegundum af ætt pálmatrjáa og bambus. Starfsemi arborets er sambærileg við starfsemi grasagarða og byggist á söfnun tegunda, rannsóknum á þeim, skráningu og tilraunum en ekki síst samskiptum og samstarfi við önnur söfn, fræskiptum og upplýsingagjöf á báða bóga.

Ned Friedman flytur erindi sitt á fundinum í ÖskjuWilliam (Ned) Friedman, prófessor í þróunarlíffræði við Harvard-háskóla talaði næstur. Hann er líka forstöðumaður eins þekktasta arborets í heiminum, Arnold Arboretum í Boston. Safnið á sér nærri 150 ára sögu og starfsemi þess teygir anga sína um allan heim með víðtæku samstarfi við önnur trjásöfn og grasagarða. Ned lagði ríka áheslu á mikilvægi samskipta og samstarfs og slíkt hefði alla tíð verið grundvallaratriði í starfsemi Arnold Arboretum. Safnið í Boston er á um 280 hektara svæði og þar vaxa þúsundir trjátegunda hvaðanæva úr heiminum. Eina nefndi Ned sérstaklega. Það er Torrey-fura (Pinus torreyana), furutegund sem vex í Kaliforníu og er í útrýmingarhættu. Sú var reynd í Boston og þrífst þar þrátt fyrir gjörólíkt loftslag og kalda vetur. Hann hvatti aðstandendur safnsins á Mógilsá til að hika ekki við að reyna líklegar sem ólíklegar tegundir, meðal annars Torrey-furu. Mest væri að læra af mistökum og með góðu samstarfi við önnur söfn mætti læra af mistökum annarra líka. Í Arnold Arboretum eru trjátegundir flokkaðar eftir skyldleika fremur en landfræðilegum uppruna.

Pamela Diggle, prófessor í vistfræði og þróunarlíffræði við Connecticut-háskóla, sagði frá áhugaverðum rannsóknum sínum á áhrifum hlýnandi veðurs á blómgunartíma trjátegunda. Hlýnunin virðist hafa misjöfn áhrif á blómgunartímann. Flestar tegundir blómgast nú fyrr en áður en sumar seinna og hjá enn öðrum sést lítil eða engin breyting. Orsakirnar eru ókunnar og Pamela telur að margt geti haft áhrif. Blómin taki að þroska ári áður en þau springa út og því séu ótal atriði sem þurfi að skoða til að fá svör við því hvað veldur mismunandi áhrifum hlýnunar og lengri sumra á blómgun trjátegunda. Spennandi verður að fá svör við þessum spurningum.

50 eikur frá skógum í fjöllum Neðra-Saxlands sem gróðursettar voru í tilefni af 50 ára afmæli Mógilsár 2017 voru meðal þess sem skoðað var þar í skóginum. Eikurnar verða dýrmætur hluti af arboretinu þar ásamt mörgu fleiru sem þar er fyrirÞröstur Eysteinsson skógræktarstjóri sagði frá trjásöfnum Skógræktarinnar sem öll hefðu orðið til „óvart“ eins og hann orðaði það. Meðan Skógræktin rak gróðrarstöðvar urðu gjarnan til afgangar af plöntum úr framleiðslunni. Stundum barst fræ af óvenjulegum tegundum, til urðu sérstakir einstaklingar og svo framvegis. Slíkur efniviður var iðulega gróðursettur í nágrenni stöðvanna og því fór smám saman að kenna þar margra grasa eða öllu heldur trjátegunda. Sumum af þessum trjám hefur verið gert til góða, hreinsað frá þeim, lagðir stígar og sett upp merki þannig að til hafa orðið forvitnileg trjásöfn, þau helstu á Hallormsstað, í Vaglaskógi, á Mógilsá og í Múlakoti en vísar að söfnum víðar í þjóðskógunum.

Wilfried Emmerechts, skógarvörður konungseigna í Belgíu og einn umsjónarmanna landfræðilega arboretsins í Tervuren, sagði frá endurgerð þess safns sem hafði verið vanrækt um nokkurt árabil. Vanræksla slíks safns hefur mikil áhrif, jafnvel þótt ekki sé í mjög mörg ár, því tré taka að falla, þekking að glatast og sambönd að slitna. Nú er verið að byggja þetta allt saman upp aftur og vinna að vefsíðu fyrir svæðið. Tervuren-safnið er ólíkt Arnold Arboretum að því leyti að þar eru trjátegundir flokkaðar landfræðilega og hægt að átta sig á því hvaða tegundir vaxa í hvaða heimshluta. Wilfried fór líka yfir stöðu trjásafna í Belgíu og nágrannalöndunum. Söfnin leynast víða og eru af margvíslegum toga.

Séð yfir hóp fundarfólks á fundinum í Öskju.Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði að lokum frá vindmælingum sem farið hafa fram undanfarin ár við Esjurætur, á Rauðhól ofarlega í Esjuhlíðum og uppi á brún fjallsins. Ráðist var í mælingarnar upphaflega í tengslum við hugmyndir um kláfferju sem setja skyldi þar upp til að flytja ferðafólk upp á fjallið. Einar segir mælingarnar sýna að verstu vindáttirnar á svæðinu, norðaustan- og austanáttir, séu alls ekki slæmar á því svæði þar sem gert er ráð fyrir arboretinu á Mógilsá. Þar njóti skjóls af sjálfu fjallinu og einnig af skóginum sem vaxinn er upp í hlíðinni.

Að loknum erindum voru líflegar umræður og svöruðu frummælendum spurningum úr sal. Á fjórða tug áhugafólks sótti fundinn og vonandi er sá áhugi til merkis um að áfram verði haldið undirbúningi að arboreti á Mógilsá. Æskilegt væri að innan tíðar yrði mögulegt að ráða starfsmann, í það minnsta í hlutastarf, til að byggja starfsemina upp, efla tengsl og samstarf innanlands og utan og fleira. Arboret á Mógilsá yrði kærkomin viðbót í náttúruvísindastarf á Íslandi og gæti líka gagnast skógræktarstarfi í landinu með ýmsum hætti. Á tímum loftslagsbreytinga er sú þekking sem aflað er í slíkum söfnum mikilvæg því vaxtarskilyrði trjátegunda eru að breytast og við því þarf að bregðast með þekkinguna að vopni.

Á næstunni hefst áheitasöfnun á Karolinafund svo flýta megi fyrir því að verkefnið komist í fullan gang. 

Texti og myndir: Pétur Halldórsson