Þingflokkar í Noregi takast nú á um mögulegar leiðir í loftslagsbaráttunni. Í nýlegri umfjöllun um  þessi mál í Noregi er sagt frá því að norska ríkisstjórnin líti á skógrækt sem helstu mótvægisaðgerðina gegn hækkandi styrk CO2 í andrúmslofti. Fulltrúar Miðflokksins gáfu nýverið út þá yfirlýsingu, að möguleikar Norðmanna í loftslagsbaráttunni fælust fyrst og fremst í því að auka nýskógrækt og vanda betur umhirðu þeirra skóga, sem fyrir eru. Þeir hafa ennfremur bent á, að nýskógrækt á 500 þúsund hekturum sem og bætt umhirða norskra skóga skili bindingu sem samsvari 12 milljónum tonna á ári, en sú binding er álíka mikil og árslosun á CO2 frá allri bílaumferð í Noregi. Undir þetta hafa fulltrúar Verkamannaflokksins tekið. Norsk dagblöð hafa undanfarið skýrt frá því að skógrækt sé og verði helsta vopn Norðmanna í loftslagsbaráttunni.

Skógræktarmenn hér á landi fagna þessari ákvörðun Norðmanna og skora á íslensk stjórnvöld að taka frændur okkar Norðmenn sér til fyrirmyndar í þessum efnum. Óvíða eru möguleikar á aukningu í nýskógrækt, og þar með kolefnisbindingu, meiri en einmitt hér á landi. Í dag þekja skógar og kjarr á Íslandi einungis um 1,5% af flatarmáli landsins en kolefnisbinding í þeim skógi samsvarar um 32% af árslosun á CO2 frá bílaumferð á Íslandi. Þetta þýðir að skógur sem þekur tæp 5% af flatarmáli landsins gæti bundið árlega alla losun á CO2 sem kemur frá bílum landsmanna. Þótt hægt verði að binda kolefni í íslenskum skógum er hér ekki verið að halda því fram, að ekki þurfi einnig að draga úr losun CO2 á Íslandi, svo sem frá bifreiðaflotanum, fiskiskipaflotanum, frá landbúnaði og frá orkufrekum iðnaði. En aukin áhersla á skógrækt getur gert þær fórnir léttbærari. Ef áform eru um aukinn orkufrekan iðnað, sem í flestum tilvikum eykur losun CO2  ígilda, er þörfin á skógrækt þeim mun meiri.

Árið 2010 gaf Umhverfisráðuneytið út skýrslu sem ber heitið „Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum“. Þar er fjallað um þau stjórntæki, sem íslensk stjórnvöld hafa í loftslagsbaráttunni. Skógrækt fær þar nokkra umfjöllun og er í lok skýrslunnar „álitin einn af hornsteinunum í aðgerðum Íslands“ í loftslagsbaráttunni. Nú, þegar fyrir liggur, að Norðmenn ætli sér að hafa skógrækt sem sitt aðal stjórntæki í loftslagsmálum, þykir íslenskum skógræktarmönnum rétt að skora á íslensk stjórnvöld að ákveða slíkt hið sama. Slíkri ákvörðun þarf að fylgja aukin fjárfesting í skógrækt hérlendis. Hvort sem sú aukna áhersla kæmi í formi aukinna fjárveitinga á fjárlögum, með fjárfestingum lífeyrissjóðanna eða með fjármagni úr annarri átt, er ljóst, að ríkisstjórn og Alþingi þurfa að móta stefnu í þessu mikilvæga máli.

Fréttin á norsku


Íslenskur texti: Brynhildur Bjarnadóttir
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir