Hluti kortlagningar af skógum Landsvirkjunar við Sogsstöðvar, eldri skógar merktir með rauðu. Brot a…
Hluti kortlagningar af skógum Landsvirkjunar við Sogsstöðvar, eldri skógar merktir með rauðu. Brot af korti úr skýrslunni

Kolefnisbinding á skógræktarsvæðum Landsvirkjunar var ríflega 2.600 tonn af CO2 á síðastliðnu ári. Binding hefur dregist lítillega saman frá síðustu úttekt sem gerð var fimm árum fyrr en spáð er að hún vaxi á ný á næsta ári, einkum í yngri gróðursetningum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem komin er út á vef Landsvirkjunar.

Í loftslags- og umhverfisstefnu sinni leggur Landsvirkjun áherslu á að ná kolefnishlutleysi. Einn þáttur í þeirri viðleitni er kolefnisbinding með skógrækt. Landsvirkjun gerir grein fyrir þeirri bindingu í loftslagsbókhaldi sínu sem hún birtir árlega með ársskýrslu. Skógræktin gerði fyrst úttekt á bindingu í skógum Landsvirkjunar árið 2011 og svo aftur 2016.

Í skýrslunni er kynnt úttekt sem gerð var haustið 2021 með það að markmiði að meta með viðurkenndum og vísindalegum hætti kolefnisbindingu skógræktar á vegum Landsvirkjunar. Er þá átt við skógrækt sem Landsvirkjun hefur kostað með einum og öðrum hætti. Eldri skógræktarsvæði í nágrenni Sogsstöðva, Blöndustöðvar og Búrfellsstöðvar voru endurmæld með því að endurtaka mælingar á mæliflötum sem mældir voru í álíka úttektum árin 2011 og 2016, auk þess sem nýir mælifletir voru lagðir í nýjar gróðursetningar við Blöndustöð. Við þetta bætast sex ný svæði, Laxaborg í Dölum, Belgsá í Fnjóskadal og Skarfanes í Landssveit þar sem land og ræktun er í umsjón Skógræktarinnar, nýræktun á Skálmholtshrauni í Flóa og við Bjarnarlón ofan Búrfellsstöðvar auk eldri ræktunnar við Laxárstöð í Aðaldal.

Á eldri svæðunum var lífmassavöxtur og þar af leiðandi kolefnisbinding trjágróðurs metin ásamt bindingu í jarðvegi og sópi. Á yngri svæðunum er trjávöxtur enn sem komið er of lítill til að mæla hann og þar var kolefnisbinding í jarðvegi og sópi einungis metin eftir landgerðarmati. Út frá þessari vinnu var hægt áætla heildarbindingu á skógræktarsvæðum Landsvirkjunar 2.645 tonn CO2 (± 185 tonn CO2 (95% vikmörk)) á árinu 2021.

Samanburður við eldra mat leiðir í ljós að árleg binding hefur dregist lítillega saman á þeim 5 árum sem liðin eru frá síðustu úttekt. Þó er spáð fyrir um aukna bindingu á næsta áratug og munar þar mestu um áætlaða aukna bindingu í yngri gróðursetningum. Á nýju svæðunum með ungum gróðursetningum var gerð greining á þéttleika og lifun trjáplantna og leiðir hún í ljós mikinn mun á þéttleika og lifun á milli svæða og einnig trjátegunda. Til að svæðin skili ásættanlegri bindingu er íbóta þörf í núverandi gróðursetningar á þeim svæðum þar sem lifun reyndist of lítil.

Lesa má skýrsluna með því að smella á þennan hlekk:

Frétt: Pétur Halldórsson