„Það er til nóg af skógi,“ segir aðstoðarskógarvörðurinn á Vöglum

Sjónvarpið flutti frétt um málið mánudaginn 30. desember og þar var rætt við Guðna Þorstein Arnþórsson, aðstoðarskógarvörð á Vöglum í Fnjóskadal. Í fréttinni sést þegar verið er að hlaða trjáviði úr skóginum á Vöglum á Þelamörk í Hörgárdal á síðasta vöruflutningabílinn sem flutti trjávið suður á Grundartanga á árinu 2013. Alls hafa um 80 slíkir farmar verið fluttir að Grundartanga á árinu, alls um 2.750 rúmmetrar (fast). Þetta er talsvert meira en áætlað var að yrði afhent á fyrstu árum tíu ára samnings sem undirritaður var milli Skógræktar ríkisins og Elkem árið 2010. Guðni Þorsteinn var spurður að því hvort enn meira væri hægt að ná úr skógunum og svaraði hann því til að nóg væri til af skógi. En hvað er nóg?