Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar.
Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar.

Grenitré eru víða illa farin af sitkalús. Einkum er þetta áberandi á höfuðborgarsvæðinu og verst þar sem bílaumferð er mikil. Sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar segir líklegt að mengun dragi úr viðnámsþrótti trjánna gegn sitkalús.

Fjallað var um þetta í fréttum Sjónvarpsins á laugardag og rætt við Eddu Sigurdísi Oddsdóttur, sviðstjóra rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Fram kom að grenitré væru víða illa farin sunnan- og vestanlands en víðar um land má sjá tré illa farin af sitkalús, til dæmis á sunnanverðum Vestfjörðum og í Eyjafirði.

Skemmdirnar sem nú sjást á trjánum eru að öllum líkindum afleiðingar síðasta árs. Trén eru brún og hafa jafnvel misst nálarnar. Í flestum tilfellum eru trén þó lifandi og allar líkur á að þau nái að klæða skemmdirnar af sér á fáeinum árum. Edda segir greinilegt að trén séu verst farin við umferðargötur og líklega sé það vegna samspils mengunar og sitkalúsar. Tré sem þurfi að þola mikið mengunarálag hafi trúlega minna mótstöðuafl gegn lúsinni. Þótt hægt sé að eitra fyrir lúsina telur Edda að fara þurfi varlega í slíkt enda drepi eitrið alla óvini lúsarinnar einnig. Það geti leitt til enn verri lúsafaraldurs því lúsin sé fljótari að fjölga sér aftur en óvinirnir og þar með sé kominn af stað vítahringur.

Edda segir þessar skemmdir á greninu áhyggjuefni enda dragi þær úr vexti og þar með kolefnisbindingu. Sitkagrenið sé mikilvægt, ekki aðeins sem ein helsta trjátegundin í skógrækt heldur geri grenitrén mikið gagn í þéttbýli, dragi úr vindi, hreinsi svifryk úr lofti og minnki mengun.

Horfa á fréttina á ruv.is

Texti: Pétur Halldórsson