Meistaravörn í samstarfsverkefni milli  Sr, Lbhí, HÍ og SLU.

Á mánudaginn, 14. maí 2007, kl. 15:00, mun Jón Ágúst Jónsson frá Ásmundarstöðum í Ásahreppi halda fyrirlestur um meistaraverkefni sitt sem nefnist „Áhrif skógræktaraðgerða á viðarvöxt og flæði kolefnis í asparskógi” í sal N-123 í Öskju, Náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7 í Reykjavík.

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, var aðalleiðbeinandi og Kesara Anamthawat-Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands, var umsjónarkennari. Hlynur Óskarsson, vistfræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands sat í meistaranefnd.

Þetta rannsóknaverkefni var unnið í samstarfi Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá og Skógfræðideildar sænska landbúnaðarháskólans. Megin markmið rannsóknarinnar var að auka skilning á skammtímaáhrifum skógræktaraðgerða, nánar tiltekið grisjunar og áburðargjafar, á kolefnishringrás og viðarvöxt íslensks asparskógar (Populus trichocarpa Torr. & Gray). Auk þess að meta áhrif á kolefnisupptöku og kolefnisbindingu ofanjarðar var sérstök áhersla lögð á að fylgjast með hvort skógræktaraðgerðirnar höfðu neikvæð áhrif á kolefnisforða jarðvegs með því að fylgjast með breytingum á jarðvegsöndun. Þar sem skógur er ræktaður upp á grónu landi er kolefnisforði jarðvegs oft margfalt stærri en í viði skógarins. Sérstaklega mikilvægt er því að rannsaka breytingar á kolefnisforða jarðvegs um leið og breytingar á ofanjarðarkolefnisforða eru metnar.

Fyrirlesturinn er opinn öllum meðan húsrúm leyfir

Myndin sýnir meistaranemann, Jón Ágúst Jónsson, við störf á rannsóknasvæði sínu sem var í 17 ára gömlum asparskógi í Gunnarsholti á Rangárvöllum.