Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Mynd: Halldór Sverrisson.
Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Mynd: Halldór Sverrisson.

Fagráðstefna skógræktar á 50 ára afmæli Mógilsár

„Með þekkingu ræktum við skóg“ er yfirskrift Fagráðstefnu skógræktar 2017, sem jafnframt verður 50 ára afmælisráðstefna Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá. Ráðstefnan verður haldin í Hörpu í Reykjavík dagana 23.-24. mars 2017.

Fyrri dag ráðstefnunnar verða erindin helguð skógrækt í krafti þekkingar eins og yfirskriftin ber með sér. Seinni daginn verða flutt ýmis erindi um skógrækt í sinni fjölbreyttustu mynd og nú auglýsir undirbúningsnefndin eftir erindum og veggspjöldum fyrir þann hluta ráðstefnunnar. Áhugasamir sendi tillögur á netfangið johanna@skogur.is, merkt Fagráðstefna 2017 fyrir 15.desember 2016. Þar komi fram titill (má vera til bráðabirgða) og eins hvort ætlunin sé að halda erindi eða kynna efnið á veggspjaldi.

Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu verða birtar síðar.

Í undirbúningsnefnd Fagráðstefnu skógræktar 2017 sitja þau Edda Sigurdís Oddsdóttir, Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, Bjarni D. Sigurðsson, prófessor við LbhÍ, Einar Gunnarsson, Skógræktarfélagi Íslands, Hrönn Guðmundsdóttir, Landssamtökum skógareigenda, og Lárus Heiðarsson Skógfræðingafélaginu.