Verkefnið Skógarkol hófst árið 2009 og gengur í stórum dráttum út á að þróa mats- og vottunarkerfi fyrir kolefnisbindingu í
íslenskum skógum. Mælingar og rannsóknir á kolefnisbindingu nýskógræktar hafa vissulega verið stundaðar hérlendis frá árinu 1998 og því liggur fyrir töluverð þekking á þessu sviði ásamt ýmsum vísindalegum tækjum og aðferðum til að meta slíka bindingu. Frá árinu 2005 hefur Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá haldið úti landsúttektarkerfi (verkefnið ÍSÚ), þar sem heildarforði kolefnis í íslenskum skógum og breytingar á honum eru metnar. Upplýsingarnar sem fást úr þeirri úttekt eru grundvöllur þess að íslensk stjórnvöld geti talið sér til tekna kolefnisbindingu skógræktar í samræmi við Kyotobókunina. Hins
vegar henta þær upplýsingar ekki til að meta kolefnisbúskap einstakra skóglenda eða skógarreita. Aftur á móti er úttekt á einstökum skóglendum eða skógarreitum forsenda þess að skógareigendur geti gert grein fyrir kolefnisbindingu á jörðum sínum og gert hana að söluvöru. Til þess að svo geti orðið þarf að þróa kerfi sem getur metið kolefnisbindingu í einstökum  skógum ásamt vottunarferli sem tryggir að metin binding í tilteknum skógi hafi í raun átt sér stað. Þróun á slíku kerfi er megintilgangur verkefnins Skógarkol.

Verkefnið hófst um mitt ár 2009 og reiknað er með að því ljúki formlega í lok árs 2011.
Helstu markmið eru:
1. Þróun matskerfis á kolefnisbindingu skógræktar sem byggir á:
a. gögnum sem safnað er með skógarúttektum, byggðum á tölfræðilegum grunni,
b. niðurstöðum rannsókna sem þegar hafa farið fram á kolefnisbindingu skógræktar á Íslandi
2. Þróun vottunarferlis fyrir matskerfi kolefnisbindingar sem tryggir að gæði gagnasöfnunar og útreikningar á kolefnisbindingu skóglenda fullnægi kröfum þeirra sem vilja kaupa kolefnisbindingu af skógareigendum.

Ljóst er að um leið og hægt verður að hafa tekjur af kolefnisbindingu skógræktar mun áhugi á skógrækt aukast og matskerfið  virka sem hvatning til aukinnar nýskógræktar á Íslandi. Bundnar eru vonir við að kolefnisbinding með nýskógrækt muni gegna  mikilvægu hlutverki við að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Í nýkynntri aðgerðaáætlun stjórnvalda í  loftslagsmálum er kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu talin virkasta aðgerðin til að draga úr nettólosun  róðurhúsalofttegunda hér á landi eða eins og segir í skýrslunni: „Reiknað er með að binding kolefnis í gróðri og jarðvegi með  skógrækt og landgræðslu verði áfram hornsteinn í aðgerðum Íslands til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda."


  • Lesa má ferkar um Skógarkol og stöðu verkefnisins í Ársriti Skógræktar ríkisins sem kemur út í næstu viku.

Texti: Brynhildur Bjarnadóttir, Arnór Snorrason, Björn Traustason og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir