Brasilískir skógræktendur senda frá sér nýtt myndband

Fyrirtæki á sviði nytjaskógræktar í Brasilíu leggja mikið í nýsköpun og tækni. Stöðugt er unnið að því að auka afköst ýmiss konar framleiðslu og um leið er markmiðið að draga úr umhverfisáhrifunum til þess að stuðla að kolefnishlutlausu sam­fé­lagi. Ávextir þessa starfs eru ótelj­andi framleiðsluvörur af margvís­leg­um toga.

Frá þessu er sagt í nýjasta tölublaði fréttabréfs skóga- og timbursviðs UNECE, efnahagsnefndar Evrópu hjá Sameinuðu þjóðunum. Meginefni fréttarinnar er nýtt mynd­band sem brasilísku skóg­rækt­ar­fyrirtækin hafa sent frá sér og gefur góða hugmynd um þau ótal­mörgu not sem hafa má af ræktuð­um trjám. Enskur titill myndbandsins er „Planted Trees and Their Multiple Uses“. Við sjáum í mynd­bandinu að allt í kringum okkur, til dæmis heima við, eru skógar­afurðir sem rekja má til trjánna, hvort sem það eru blómin, ávextirnir, greinarnar, börkurinn, viðurinn eða trjákvoðan.

Framleiðsluvörur sem eiga uppruna sinn í skóginum ná yfir breitt svið. Meira að segja á þetta við um fyrirbæri eins og grillsósur, rjómaís, sykurþykkni, mjólkurvörur, safar, hundamat, lökk, lyfjabelgi, nátt­úr­leg vatnsvarnarefni, sótthreinsiefni, sápur, síur, fatnað, klæði, snyrtivörur og bleiur en líka aug­ljós­ari hluti eins og pensla, pappír, umbúðir, spónaplötur, parket og bækur. Einnig er talað um elds­neyti, leysiefni, lím, málningu, rotvarnarefni, koltrefjaefni, tjörupappa og fleira.

Í myndbandinu eru líka nefndar nýjar framleiðsluvörur sem eru afrakstur nýjustu tækni og vænta má að verði fljótlega daglegt brauð hjá okkur. Nýsköpun og fjárfestingum brasilíska skógræktargeirans er ekki síst beint að framleiðslu sem leyst gæti af hólmi það sem nú er framleitt úr endanlegum auð­lindum á borð við olíu og kol. Þar kemur líftækni og nanótækni mikið við sögu.

Myndbandið Planted Trees and Their Multiple Uses

Heimild: Forest Information Billboard, desember 2017
Texti: Pétur Halldórsson